Nokkrir ónafngreindir aðilar hafa gert óformleg tilboð í gegnum banka um að taka yfir Iceland Express, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins. Birgir Jónsson, forstjóri Iceland Express, sagðist ekki geta tjáð sig um málið þegar Viðskiptablaðið hafði samband við hann.

Iceland Express er í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar. Eignarhaldsfélagið Fons, sem er stjórnað af Pálma og Jóhannesi, á einnig norræna lággjaldaflugfélagið Sterling og danska flugfélagið Mærsk Air, sem voru formlega sameinuð í síðustu viku undir nafninu Sterling Airlines A/S. FL Group og Sterling Airlines eiga í yfirtökuviðræðum um þessar mundir. Heimildamenn Viðskiptablaðsins, sem þekkja til í herbúðum Fons, segja að félagið hafi áhuga á að fá til liðs við sig aðra fjárfesta til að koma að rekstri Sterling-samstæðunnar.

Heimildamenn Viðskiptablaðsins segja að Iceland Express sé falt fyrir um 500 milljónir króna til viðbótar við skuldir. Reikna má með því, segja sérfræðingar, að kaupverðið liggi á bilinu 4-6 sinnum hagnaður félagsins fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA). Afkomutölur flugfélagsins eru ekki fáanlegar en búist er við að hagnaður verði af rekstri félagsins á þessu ári, þrátt fyrir erfitt rekstrarumhverfi. Hátt olíuverð hefur verið að éta upp reksrarafgang flestra flugfélaga í heiminum þó svo að mörg þeirra kaupi eldsneyti á framvirkum samningum.

Í byrjun mánaðar tilkynnti Iceland Express um flug á sex nýja áfangastaði. Nýju áfangastaðirnir eru Stokkhólmur og Gautaborg í Svíþjóð, Bergen í Noregi, Berlín, Hamborg og Friedrichshafen í Þýskalandi. Bætast þeir við núverandi áfangastaði félagsins, London, Kaupmannahöfn og Frankfurt Hahn.

Með stækkun leiðakerfis félagsins harðnar samkeppnin við dótturfélag FL Group, Icelandair. Ekki er þó talið að Icelandair sé einn af þeim aðilum sem hafa gefið til kynna áhuga á því að yfirtaka Iceland Express.