Skrifað verður undir samning um stofnun Oceana á Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpu kl. 17:00 í dag. Oceana er öndvegissetur sem ætlað er að vinna að útfærslu hugmynda um verndun hafsins með því að draga úr mengun með grænni tækni.

Oceana verður vettvangur samstarfs fyrirtækja, opinberra aðila og rannsóknarstofnana sem vilja vinna að hafverndarmálum á alþjóðavettvangi og geta kynnt sig og sína starfsemi sem vistvæna. Oceana hyggst nýta þá þekkingu sem er til staðar í háskólum, stofnunum og fyrirtækjum til að auka vitund og þekkingu á þeim breytingum sem gera má ráð fyrir í umhverfi hafsins á komandi árum vegna aukinnar skipaumferðar í íslenskri landhelgi og loftlagsbreytinga. Oceana er ætlað að leiða til samstarfs er muni fjölga verðmætum störfum í tækni- og hugverkagreinum, draga að erlent rannsóknarfjármagn og stuðla um leið að verndun lífríkisins í hafinu í kringum landið.

Verkefnið er stutt af fjölmörgum aðilum, s.s. Umhverfis og auðlindaráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Landsbankanum, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Hafrannsóknarstofnun, Orkustofnun, Samtökum iðnaðarins, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Granda hf. og Clean Tech Iceland sem eru samtök fyrirtækja í grænni tækni, og fjölda tæknifyrirtækja.

Formleg undirritun stofnsamningsnins verður í Hörpu kl. 17:00 í Rímu A á jarðhæð hússins. Á eftir fylgir dagskrá þar sem fjallað verður um Oceana. Meðal ræðumanna verða Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Jón Ágúst Þorsteinsson stjórnarformaður Ark Technology og Ágústa Loftsdóttir vísindamaður á Orkustofnun.