Breskir fjölmiðlar birtu í dag og í gær fréttir af því að Kaupþing hafi fyrir hönd ónefndra íslenskra fjárfesta keypt 2,5% hlut í bresku smásölukeðjunni Woolworths, segir greiningardeild Landsbankans.

Um er að ræða 42 fjárfesta og eru flestir þeirra búsettir á Íslandi en Kaupþing vildi ekki upplýsa frekar hverjir þeir væru. Þar fyrir utan á Baugur nú 8% hlut í Woolworths og hækkuðu bréf í fyrirtækinu um rúm 31% í kjölfar kaupa Baugs í síðasta mánuði.

Fregnir af kaupunum bárust í kjölfar þess að Woolworths nýtti sér ákvæði sem segir til um að hluthafar verði að segja fyrirtækinu nafn sitt óski það þess, segir greiningardeildin.