Nýjasta Airbus 321 vél Primera Air hefur verið afhent flugfélaginu í Hamborg í Þýskalandi. Um er að ræða fullkomnustu tegund Airbus 321 NEO, með auka eldsneytistönkum, sem gerir vélinni kleift að fljúga beint frá Evrópu til Bandaríkjanna.

Þessi vél mun fljúga frá London til Boston og Toronto, árið um kring, en Primera Air flýgur nú þegar til New York daglega, og hefur flug til Washington í lok sumars. Móttökur hafa verið vonum framar og sala gengið afar vel frá London og París segir í fréttatilkynningu, en þessi vélartegund mun koma í stað breiðþota á mörgum leiðum í framtíðinni vegna hagkvæmni sinnar.

Vélin hefur 198 sæti; 182 í venjulegu farrými og 16 í Premium. Þessi Airbus vél er önnur í röðinni sem afhent er Primera Air, en alls tekur félagið við 8 nýjum Airbus þotum á þessu ári, sem munu fljúga frá London og París til Bandaríkjanna. Að auki verða kynntir nýir áfangastaðir í næstu viku.

Primera Air er með flugrekstrarleyfi í Danmörku og Lettlandi og er með meginstarfsemi sína í Lettlandi. Félagið flýgur frá Norðurlöndunum, Bretlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum og verður með 18 vélar í rekstri á árinu 2018. Félagið er í eigu Andra Más Ingólfssonar.