„Það er enginn skítur þarna, við vorum bara ekki sammála,“ segir Ágúst Torfi Hauksson, sem samkvæmt samkomulagi við stjórn Jarðborana hefur látið af störfum sem forstjóri fyrirtækisins. Ágúst segir að hann og stjórn félagsins hafi verið ósammála um leiðir að því markmiði að efla rekstur Jarðborana.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku nam tap Jarðborana tæpum milljarði á síðasta ári og segist Ágúst enn sem áður bjartsýnn á framhaldið. Ágúst er annar forstjóri Jarðborana sem lætur af störfum á þessu ári en forveri hans hætti hjá fyrirtækinu í byrjun árs, skömmu eftir að félagið SF III undirritaði samning um kaup á 82% hlut í fyrirtækinu.

Meðal eigenda SF III eru lífeyrissjóðir og Samherji. Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Jarðborana, mun gegna starfi forstjóra þar til ráðningarferli nýs forstjóra lýkur. Baldvin vill ekki tjá sig um málefni fyrirtækisins við fjölmiðla.