Búist er við að framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) taki afstöðu til yfirlýsingar (e. letter of intent) íslenskra stjórnvalda í júlímánuði.

Þetta kom fram á blaðamannafundi með Mark Flanagan, fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í morgun en sendinefnd AGS, undir stjórn Flanagans, hefur í samstarfi við íslensk stjórnvöld nær lokið fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda vegna lánafyrirgreiðslu sjóðsins

Nú þegar hefur aðeins ein greiðsla af láni AGS verið greidd en samkvæmt upprunalegri áætlun var gert ráð fyrir að lánið yrði greitt í átta greiðslum, ársfjórðungslega í tvö ár.

Í kjölfar þess mun AGS veita annan hluta láns hans til styrkingar gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands. Fyrirhuguð heildarlánveiting AGS til Íslands nemur 2,1 milljarði Bandaríkjadala. Þegar hafa verið greiddar um 830 milljónir dala inn á reikning Seðlabanka Íslands sem vistaður er hjá seðlabanka Bandaríkjanna.

Seðlabankinn þarf að hafa burði til að verja krónuna

Flanagan sagði á fundinum í morgun að ekki yrði hægt að afnema gjaldeyrishöft hér á landi fyrr en gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans væri orðinn stöðugur. Það myndi gerast með frekari lánveitingum frá AGS og öðrum samstarfsþjóðum.

Eins og aðstæður væru nú hefði Seðlabankinn, að mati Flanagan, ekki burði til að verja krónuna en gera má ráð fyrir nokkru útflæði af krónu við afnám gjaldeyrishafta. Þetta kemur heim og saman við það sem Franek Rozwadwski, sendifulltrúi AGS á Íslandi, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku.

Þá sagði Flanagan að herða þyrfti á gjaldeyrishöftunum en einhver tilvik bentu til þess að farið væri framhjá þeim. Hann sagði að stjórnvöld þyrftu að efla eftirlit með flutning á gjaldeyri við núverandi aðstæður, þ.e. fylgja þeim betur eftir.