Um helmingur af þeim 87 íslensku leiknu kvikmyndum í fullri lengd* sem frumsýndar voru á árunum 1996 til 2013 og teknar voru til almennra sýninga í kvikmyndahúsum fékk innan við tíu þúsund sýningargesti. Þetta kemur fram í nýrri frétt Hagstofu Íslands .

Gestafjöldi að meðaltali á hverja frumsýnda mynd á árunum 1996-2013 var 16.960. Hins vegar var aðsókn að helmingi myndanna innan við 10.773 gestir. Sjö myndir fengu yfir 50.000 gesti, tvær myndir yfir 80.000 áhorfendur, en sú mynd sem minnsta aðsókn hlaut fékk innan við 50 áhorfendur.

Af tíu vinsælustu innlendu kvikmyndum sem frumsýndar voru á árunum 1996 til 2013 voru fjórar myndanna í leikstjórn Baltasar Kormáks og tvær í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar. Englar alheimsins, í leikstjórn þess síðar nefnda, var með mesta aðsókn, eða ríflega 83.000 gesti. Í öðru sæti var Mýrin, í leikstjórn Baltasar Kormáks, með hátt í 82.000 áhorfendur. Aðeins ein barna- og fjölskyldumynd er á meðal tíu aðsóknarhæstu myndanna.

Aðsóknarhæsta kvikmynd í leikstjórn konu er Stella í framboði í leikstjórn Guðnýjar Halldórsdóttur, sem er tólfta aðsóknarhæsta myndin, með hátt í 35.000 gesti.