Önnur hver króna sem kemur í kassann í minkarækt er hreinn hagnaður. Þetta segir Björn Halldórsson, formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda, í viðtali við Morgunblaðið í dag. Þar segir hann jafnframt Norðurlöndin vera fremst í minkarækt og fá Íslendingar næst hæst verð fyrir skinnin, rétt á eftir Dönum.

Minkabúum hér á landi hefur fjölgað um sex á þremur árum og eru nú 28. Heimsmarkaðsverð á minkaskinnum hefur hækkað um 170% á síðustu fimm árum en á sama tíma hefur framleiðslukostnaður hækkað um 80%. „Það kostar rúmlega sex þúsund krónur að framleiða skinn. Það sem af er ári höfum við selt um 85% framleiðslunnar og er meðalverðið um 13 þúsund krónur. Í fyrra seldust skinnin á tólf þúsund krónur og framleiðslan kostaði sex þúsund krónur. Meðalbú framleiðir um sjö þúsund skinn og hagnaðurinn er um það bil þrisvar sinnum meiri en veltan hjá meðal sauðfjárbúi,“ segir Björn í viðtalinu.

Útflutningstekjur greinarinnar námu rúmlega 1,6 milljörðum króna í fyrra.