Mjólkurbúið Kú hefur lagt fram aðra kæru á hendur MS, nú fyrir 20% yfirverðlagningu á rjóma til félagsins. Samkeppniseftirlitið lagði á mánudag 370 milljón króna frétt á MS vegna alvarlegrar misnotkunar á markaðsráðandi stöðu sinni og brota á samkeppnislögum.

Ólafur M. Magnússon fullyrðir að sambærilegt brot hafi átt sér stað af hálfu MS þar sem félagið seldi Mjólkurbúinu rjóma á 20% hærra verði en tengdum aðilum. „Samkvæmt okkar upplýsingum hefur þessi mismunun í rjómasölu til okkar staðið í um það bil tvö ár og skekkt samkeppnisstöðu okkar gagnvart Mjólku og öðrum útvöldum vildarvinum MS,“ segir Ólafur M. Magnússon framkvæmdastjóri Mjólkurbúsins.

Í ljósi niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins frá því á mánudag telur hann rétt að stíga fram með fleiri mál sem hann telur að feli í sér brot MS á samkeppnislögum. „Brotið sem MS var sektað fyrir er því miður ekki einangrað dæmi um óeðlilega viðskiptahætti þessa einokunarrisa. Það er mikilvægt að löggjafinn dragi réttan lærdóm af þeim upplýsingum sem hafa komið fram um starfshætti MS að undanförnu og felli niður undanþágur MS frá Samkeppnislögum,“ segir Ólafur M. Magnússon framkvæmdastjóri Mjólkurbúsins KÚ.