Kona á níræðisaldri hefur stefnt íslenska ríkinu vegna innheimtu auðlegðarskattsins. DV fjallar um málið í dag. Þar segir að konan hafi greitt 24 milljónir króna í skatt, þar af greiddi hún 13 milljónir króna í auðlegðarskatt. Á sama tíma námu tekjur hennar 19 milljónum króna. Hróbjartur Jónatansson er lögmaður konunnar. Hann segir í samtali við blaðið konuna hafa þurft að selja eignir til að eiga fyrir skattgreiðslunni.

Blaðið nafngreinir ekki konuna en segir hana eignamikla með hreina eign upp á um 650 milljónir króna ef miðað er við 2% auðlegðarskatt af eignum yfir 150 milljónir króna.

Þetta er annað málið sem vitað er um þar sem ríkinu er stefnt vegna auðlegðarskattsins. VB.is greindi frá því í maí að Guðrún Lárusdóttir, framkvæmdastjóri útgerðarinnar Stálskipa í Hafnarfirði, hafi sömuleiðis stefnt ríkinu til endurgreiðslu á 35 milljóna króna auðlegðarskatti sem hún hafi greitt.

Auðlegðarskatturinn var innleiddur árið 2009. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur sagt að skatturinn verði ekki framlengdur.

Vill láta reyna á lögmæti auðlegðarskattsins

Hróbjartur Jónatansson sagði í grein sem hann skrifaði í Viðskiptablaðið í byrjun árs vera að undirbúa málssókn á hendur ríkinu vegna auðlegðarskattsins. Hann taldi skattheimtuna brjóta í bága við stjórnarskrá og sagði marga áhugasama um málið. Með málinu átti að láta reyna á lögmæti auðlegðarskattsins.

Hann skrifaði:

„Í öðrum löndum er þetta í rauninni eins og launaskattur. Hér er hins vegar ekkert samhengi á milli tekna viðkomandi, skattbyrði hans og þessa skatts. Fólk getur því lent í því að vera með lágar tekjur en með fasteignir sem mynda auðlegðarskattstofn án þess að það gefi af sér tekjur,“ segir hann og bætir við að þegar svo beri undir verði viðkomandi að fjármagna skattgreiðsluna, svo sem með því að ganga á skattstofninn eða fjármagna hann með lántöku. Takist það ekki geti ríkið gengið að viðkomandi. „Við viljum láta reyna á það hvar mörkin eru á milli skattheimtu og því hvar friðhelgi eignaréttarins er rofin,“ segir Hróbjartur og vísar til þess að í 1. lið í 72. grein stjórnarskrárinnar sé fjallað um friðhelgi eignarétturinn.