Ferðaþjónustan er í sárum vegna þeirra aðgerða sem stjórnvöld kynntu í vikunni og telur greinin engan veginn nóg að gert til að hindra fjöldagjaldþrot á næstu vikum. Mörg fyrirtækjanna eiga ekki laust fé til að greiða starfsfólki þriggja mánaða uppsagnarfrest en sjá fram á að vera tekjulaus á meðan engir ferðamenn séu á landinu.

Lögmennirnir Almar Þ. Möller og Ragnar H. Hall, velta upp hvort þegar séu fyrir hendi lagaákvæði sem heimila ferðþjónustufyrirtækjum að taka starfsmenn af launaskrá í grein sem þeir skrifa á Vísi.

Sjá einnig: Aðgerðaleysi þýðir fjöldagjaldþrot

Þeir benda á að í þriðju grein laga um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum nr. 19/1979 segi:

Nú fellur niður atvinna hjá atvinnurekanda, svo sem vegna þess að hráefni er ekki fyrir hendi hjá fiskiðjuveri, upp- og útskipunarvinna er ekki fyrir hendi hjá skipaafgreiðslu, fyrirtæki verður fyrir ófyrirsjáanlegu áfalli, svo sem vegna bruna eða skipstapa, og verður atvinnurekanda þá eigi gert að greiða bætur til launþega sinna, þó að vinna þeirra nemi eigi 130 klukkustundum á mánuði, enda missa launþegar þá eigi uppsagnarrétt sinn meðan slíkt ástand varir.

Séu ákvæði laganna uppfyllt geti atvinnurekandi tekið starfsmann af launaskrá en ráðningarsamningurinn haldi gildi sínu. Ekki þurfi að greiða starfsmanni laun og á móti heldur ekki hægt að krefjast vinnuframlags af honum. Almar og Ragnar segja að í ákvæðinu felist að atvinnurekanda sé heimilt að greiða laun að hluta þar sem segir að ekki sé skylt að greiða bætur „þó að vinna [starfsmanns] nemi eigi 130 klukkustundum á mánuði“. Vinnuskyldan sé þó einungis í samræmi við launin sem fáist greidd.

Fordæmi úr fiskvinnslu

Almar og Ragnar benda á dóm Hæstaréttar frá árinu 1985 þar sem fiskvinnslustöð var heimilt að taka starfsmann af launaskrá þar sem vinnslustöðvun hjá fyrirtækinu var fyrirsjáanleg. Fiskvinnslustöðin væri ekki talin líkleg til að geta sótt afla með eigin togara eða útvegað sér afla annars staðar enda hafi fyrirtækið verið í langvarandi taprekstri að fyrirtækið var í peningaþrotum og lánafyrirgreiðsla hafi verð stöðvuð. Dómnum og lögunum var ætlað að taka tillit til óstöðugleika í íslenskum sjávarútvegi sem  atvinnurekendur fái ekki sjálfir ráðið við.

„Fyrirtæki í ferðaþjónustu eru augljóslega í sömu stöðu og lýst er að framan. Lokað er fyrir fólksflutninga til landsins. Kaldranalegt sem það hljómar eru ferðamenn „hráefni“ ferðaþjónustufyrirtækja. Svo lengi sem flugsamgöngur liggja niðri er ljóst að hráefnið verður ekki fyrir hendi. Flugsamgöngur eru meginforsenda farþegaflutninga á milli landa á sama hátt og skipakomur eru forsenda „upp- og útskipunarvinnu“ hjá skipaafgreiðslu. Loks hefur atvinna fallið niður vegna samkomubannsins og fyrirtæki hafa af þeim sökum orðið fyrir „ófyrirsjáanlegu áfalli“,“ segja lögmennirnir.

Þeir telja að dæmin sem þar séu nefnd séu ekki tæmandi upptalning og unnt sé að fella fyrirtæki í ferðaþjónustu undir þær skilgreiningar sem lögin taka til. Yrði þessi leið fær yrði það stórt skref í að leysa vanda fyrirtækja í ferðaþjónustu þó hún leysi ekki allan vanda.

Þeir benda einnig á að í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 19/1979 segi að starfsmenn haldi hagstæðari réttindum sem eru veitt með sérstökum lögum, samningum eða samkvæmt venju í einstökum starfsgreinum. Atvinnurekendur sem hyggjast nýta sér heimildin yrðu því að skoða ráðningarsamninga og kjarasamninga starfsmanna.

Hugsanlega þyrfti þó lagabreytingu til um leið þar sem atvinnuleysistryggingar í núverandi mynd virðist ekki tryggja rétt til atvinnuleysisbóta fyrir þá sem færðir eru niður í vinnu samkvæmt fyrrgreindum lagaákvæðum.