Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti sína um 0,5 prósentur 1. nóvember síðastliðinn og var það fimmta vaxtahækkun bankans á þessu ári. Stýrivextir bankans standa nú í 7,25% og spáum við því að bankinn muni hækka vexti sína um aðrar 0,5 prósentur samhliða útgáfu Peningamála 2. desember næstkomandi. Samhliða síðustu vaxtahækkun gaf bankinn það sterklega til kynna að frekari aðgerða væri þörf til að ná verðbólgunni niður að markmiði bankans.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að verðbólgan er talsvert umfram verðbólgumarkmiðið og að óbreyttum stýrivöxtum eru litlar líkur á því að sú staða breytist á næstu misserum. Í ljósi þessa teljum við líklegt að bankinn muni ráðast í aðra vaxtahækkun í upphafi næsta mánaðar og að hann hækki vexti sína en frekar á næsta ári. Líklegt er að bankinn verði kominn með stýrivexti sína í 8,5% fyrir mitt næsta ár og að bankinn muni jafnvel hækka vexti sína enn frekar áður en árið 2005 er á enda.