*

mánudagur, 24. júní 2019
Innlent 7. apríl 2018 16:01

Önnur vinnubrögð í Noregi og Svíþjóð

Ferlið á bakvið stjórnarskipun Isavia er með allt öðrum hætti en gerist fyrir samskonar ríkisfyrirtæki í Noregi og Svíþjóð.

Ritstjórn
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, er stjórnarformaður Isavia.
Haraldur Guðjónsson

Í Noregi og Svíþjóð eru viðhöfð allt annars konar vinnubrögð við skipan stjórnarmanna í þau opinberu fyrirtæki sem fara með umsjón flugvalla landanna heldur en á Íslandi að því er Túristi greinir frá.

Ný stjórn Isavia var skipuð á ársfundi félagsins síðastliðinn fimmtudag en venju samkvæmt tilnefndu stjórnmálaflokkarnir sem eiga fulltrúa á þingi, einstaklinga í stjórn og varastjórn. Stjórnin er svo formlega kjörin af ráðherra eða í umboði hans. 

Í Noregi og Svíþjóð heyra stærstu flugvellir landanna undir ríkisfyrirtækin Avinor og Swedavia. 

Stjórnarskipan í Swedavia fer þannig fram að sérstök nefnd skilgreinir hæfniskröfur sem gera skal til þeirr sem sitja í stjórnum ríkisfyrirtækja. Kröfurnar eru m.a. byggðar á starfsemi viðkomandi fyrirtækis, framtíðarverkefnum og samsetningu stjórnar. Í framhaldinu fer af stað ráðningarferli stjórnarmeðlima. Auk þess fá starfsmenn viðkomandi fyrirtækis að skipa einn stjórnarmann. Stjórnarfólkið hefur ekki tengsl við stjórnmálaflokka samkvæmd svari Swedavia til Túrista.

Stjórnarskipan í Avinor er með þeim hætti að starfsfólk á þrjá fulltrúa í átta manna stjórn en samgönguráðuneytið skipar hina fimm. Störf þeirra fyrir stjórnmálaflokka hafa hins vegar ekkert með skipan þeirra að gera að því er segir í svari Avinor til Túrista. Öllu heldur byggja stöðuveitingarnar á starfsreynslu og sérstaklega er lögð áhersla á að fá fólk úr viðskiptalífinu. Í reglugerð um starfsemi Avinor segir að innan stjórnarinnar skuli vera næg þekking til að tryggja að fyrirtækið sýni frumkvæði í rekstri flughafnar sem og í flugöryggismálum.

Nýja stjórn Isavia skipa þau Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, Matthías Páll Imsland, fyrrum aðstoðarmaður félagsmálaráðherra og fyrrverandi forstjóri Iceland Express, Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, varaþingmaður Miðflokksins og systir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Valdimar Halldórsson, framkvæmdastjóri Hvalasafnsins á Húsavík og Eva Pandora Baldursdóttir, fyrrverandi þingkona Pírata.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is