Auður Capital er fyrsta fjármálafyrirtæki á Íslandi sem stofnað er af konum og setur rekstur á vegum kvenna eða fyrir konur í forgrunn. Einn helsti tilgangurinn er að auka aðgengi kvenna að fjármálaheiminum. Kristín Pétursdóttir, forstjóri félagsins, segir þær vera að feta sig inn á ónumið land. Talsvert aðrar aðferðir þurfi til að nema það en nýttar eru í fjármálageiranum í dag.

Stofnendur Auðar Capital, þær Halla Tómasdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, og Kristín Pétursdóttir, fyrrum aðstoðarforstjóri Kaupþing Singer & Friedlander, eygja viðskiptafæri í vaxandi auðlegð kvenna og breyttu gildismati.  Þær vilja beita annarri og kvenlægari nálgun við fjármálaþjónustu en áður hefur staðið til boða.

Einnig hefur fyrirtækið sett á stofn fjárfestingarsjóð, Auður I, sem hefur að markmiði að fjárfesta í starfandi fyrirtækjum sem eru í eigu kvenna, þar sem þær eru í forsvari eða lykilstjórnendur, eða sinna sérstaklega þjónustu eða framleiðslu fyrir konur með einhverjum hætti.

Þegar fjármögnun sjóðsins lauk í mars sl. nam heildarfjárhæð áskrifta 3,2 milljörðum króna. Alls tók 21 fjárfestir þátt í verkefninu og meðal þeirra eru flestir af stærstu lífeyrissjóðum landsins sem og aðrir stofnana- og fagfjárfestar.

Kristín, þú hættir störfum sem aðstoðarforstjóri hjá Kaupþingi Singer & Friedlander í London í árslok 2006. Sögur hermdu að ástæðan hafi verið að þú varst ósátt við að hafa ekki fengið stöðu bankastjóra Kaupþings á Íslandi.

„Nei, það er rangt, það stóð aldrei til. Ég skildi við Kaupþing í mikilli vinsemd og bróðerni. Ég upplifði það ekki hjá Kaupþingi að framhjá mér væri gengið, komst þangað innan fyrirtækisins sem ég vildi fara og hætti sátt. Ég var búin að vera þarna í tíu ár, frábær tími og ótrúlegt ævintýri, búin að læra ótrúlegustu hlutu og vinna með frábærum hópi fólks, og fannst ég búin að upplifa og fá það út úr starfinu sem mig langaði til.

Það var eitthvað annað farið að ýta við mér og ég komst að þeirri niðurstöðu að mig langaði að gera eitthvað annað næstu tíu ár. Ég gekk hins vegar með óljósar hugmyndir í maganum um hvað það yrði og fannst að ég yrði að hætta hjá Kaupþingi til að skilgreina það til hlítar. Mig langaði að finna nýja áskorun og uppgötva hvað ég gæti gert fyrir utan Kaupþing, og fylgdi þeirri löngun alla leið."

Auður íslensk í húð og hár

Hugmyndin að baki Auði Capital hefur óneitanlega vakið athygli og umtal. Sækir hún til erlendra fyrirmynda?

„Nei, í raun og veru ekki. Við höfum ekki fundið neitt sambærilegt fjármálafyrirtæki erlendis. Við höfum aðeins rekist á mjög litla vísa að einhverju sambærilegu, svo sem litla fjárfestingarsjóði undir stjórn kvenna en þeir eru langtum minni en sá sem við rekum og viðkomandi aðilar starfa eingöngu á því sviði. Við höfum einnig fundið vísi að eignastýringarfyrirtækjum sem reyna að höfða til kvenna, en okkur virðast þær tilraunir aðallega felast í að pakka bæklingunum inn í bleikar umbúðir og lítið annað býr að baki. Tækifærin eru því mörg annars staðar og markhópurinn er risastór en framtíðin mun leiða það í ljós hvernig við munum vaxa.

Fyrst og fremst erum við að horfa til þess að koma því á koppinn sem við erum að fara af stað með, þ.e. fjárfestingartengda þjónustan hérlendis, en vaxtartækifærin geta bæði verið í fólgin í að auka og dýpa þjónustuframboðið og/eða að horfa út fyrir landsteinana. Málið er að hillan sem Auður Capital hefur fundið sér er líka til í öllum nágrannalöndum.Við erum að feta okkur inn á ónumið land og það þarf talsvert aðrar aðferðir til að nema það en þekktar eru í fjármálageiranum í dag.”

Í kynningarefni um hugmyndafræðina að baki Auði Capital segir m.a. að „ómæld vaxtartækifæri [eru] tengd fyrirtækjum sem ná að gera samfélagslega og siðferðislega ábyrgð að viðskiptalegum ávinningi. Þessi tækifæri eru hreinlega of góð til að láta fram hjá sér fara.” Eru mörg fyrirtæki á Íslandi sem uppfylla ekki þessar kröfur?

„Ég held að þetta snúist um ákveðna samfélagslega meðvitund. Fjárfestar gera í auknum mæli kröfur um að fyrirtæki sem þeir fjárfesta í taki samfélagslega ábyrgð og séu samfélagslega meðvituð. Þetta snýst bæði um fagfjárfesta og einstaklinga. Við höldum því ekki fram að íslensk fyrirtæki taki almennt ekki samfélagslega eða siðferðislega ábyrgð, en fjárfestingartækifæri á Íslandi eru einungis lítið brot þeirra fjárfestingartækifæra sem finna má í heiminum.

Við teljum að fólk almennt, ég og þú, sé að verða miklu meðvitaðri um samfélagslega ábyrgð og það er farið að skipta viðskiptavini máli hvernig fyrirtækin haga framleiðslu sinni og þjónustu. Það er ekki bara fjárhagslega arðsemin sem skiptir máli eða að kaupa ódýrustu vöruna. Fyrirtæki munu vitanlega sjá aukin viðskiptatækifæri í þessari þróun.

Áður fyrr var það þannig að annað hvort voru menn í bissness til að græða eða voru í góðgerðarstarfsemi. Það voru bara tveir pólar. Í dag er hins vegar hægt að gera gríðarlega góðan bissness með því að vera samfélagslega ábyrgur og meðvitaður. Það er hins vegar ekki svo að til sé ákveðin mælieining sem segir til um hvort að fyrirtæki sé samfélagslega ábyrgt eða ekki. Ákveðnir þættir geta hins vegar verið til staðar. Við erum að tala um meðvitund, sem er vissulega stórt hugtak, en jafnframt ný vídd í hugsunina í viðskiptalífinu.”

Ef að til ykkar kæmi aðili með arðvænlegt fyrirtæki í leit að fjármálaráðgjöf eða fjárfestingu, hvernig mynduð þið skoða fyrirtækið út frá samfélagslega þættinum?

„Fyrst könnum við auðvitað hvort um sé ræða gott viðskiptatækifæri, skilar það arðsemi og eru vaxtarmöguleikar fyrir hendi. En ef við sjáum að framleiðsla þess eða þjónusta hefur líka í för með sér jákvæð samfélagsleg áhrif er það ótvíræður bónus. Þau áhrif geta verið af fjölmörgum toga, t.d. að framleiðsla fyrirtækisins leysi einhvern umhverfisvanda, að hún sé umhverfisvæn, skapi störf á ákveðnu sviði eða stuðli að samfélagsuppbyggingu.

Þetta er hins vegar mjög breiður vettvangur og samfélagsþátturinn er aðeins einn parameter sem við viljum hafa til viðbótar við alla hina. Það þýðir ekki að við myndum ekki fjárfesta í góðu fyrirtæki þó svo að við sæjum ekki einhvern gríðarlegan samfélagslegan ábata af verkefninu, en  við myndum þó líklega ekki fjárfesta í einhverju sem við teldum gífurlega samfélagslega óábyrgt.”

Ekki bara svartar og hvítar nótur

Mynduð þið fjárfesta t.d. í vopnaframleiðendum, olíufélögum eða fataframleiðendum sem hafa reynst nota barnungt vinnuafl í verksmiðjum sínum?

„Við myndum tæplega fjárfesta í fyrirtæki sem við teldum ganga þvert á sjónarmið okkar. En þetta er ekki svona svart eða hvítt. Litbrigðin eru miklu fleiri. Við viljum vekja athygli á tækifærum sem felast í ákveðinni aðferðafræði en við viljum ekki útiloka aðra kosta. Við munum bjóða upp á sjóði sem sérhæfa sig í verkefnum með samfélagslegri áherslu en við munum líka bjóða upp á hefðbundna sjóði. Þetta snýst um að huga að þessum atriðum, setja þessa hugsun inn í það sem við tökum okkur fyrir hendur í stað þess að spila bara á svartar eða bara hvítar nótur.”

Þið ræðið um „viðskiptatækifæri sem eru að verða til í breyttu samfélagi.” Hvaða samfélagsbreytingar hafið þið þá í huga og hvaða tækifæri?

„Þetta er meginþátturinn sem við erum að tala um. Þegar við ákváðum að stofna Auði Capital byggðist það á að við höfðum komið auga á viðskiptatækifæri fólgið í þeim gríðarlegu breytingum sem orðið hafa hjá konum undanfarna áratugi. Mann- og fjárauður kvenna er að vaxa gífurlega hratt.

Tveir af hverjum þremur háskólanemum í dag eru konur og þær eru í meirihluta í flestöllum deildum háskólanna. Háskólinn er einsog pípa sem liggur inn í atvinnulífið og því mun þessi þróun halda áfram. Reynsla kvenna af atvinnurekstri hefur aldrei verið meiri og fjölmargar konur eru ábyrgar fyrir daglegum rekstri fyrirtækja, hvort sem um er að ræða fjármálastjóra eða aðstoðarforstjóra og stundum forstjóra. Þær eru hins vegar mjög sjaldan eigendur.

En það eru ákaflega margar konur sem hafa áhuga á að eignast fyrirtæki og þær munu gera það í auknum mæli á næstu árum. Stöðugt fleiri konur eru að stofna eigin fyrirtæki og rannsóknir sýna að fyrirtæki sem konur stofna lifa að jafnaði lengur og standa betur í skilum. Fyrirtæki sem hafa konur við stjórnvölinn eru líka að skila betri arðsemi þegar litið er lengri tíma.

Fjárauður kvenna er líka að aukast og meginskýringin er sú að menntun þeirra hefur aukist. Kaupmáttur kvenna hefur jafnframt aukist og konur eru orðnar geysilega mikilvæg efnahagsleg stærð. Konur taka um 80% kaupákvarðana á heimilum og þá erum við ekki aðeins að tala um föt og matvæli, heldur hluti einsog bíla, tölvur o.s.frv. Við sjáum því gríðarstóra breytingu ef litið er 10-20 ár aftur í tímann.

Á sama tíma hefur fjármálaumhverfið, og þá er ég aðallega að tala um fjárfestingahluta þess, verið afskaplega karllægt. Það er ekki óeðlilegt því að í gegnum tíðina hafa fyrst og fremst karlar verið að stunda viðskipta og sýsla með fé, en nú eru tímarnir að breytast."

Ekki málað bleikt og rósótt

Í viðtali við Viðskiptablaðið haustið 2007 sögðuð þið Halla meðal annars: „Sú þjónusta sem bankar veita á sviði fjárfestinga er mjög karllæg. Hún hefur verið búin til af körlum, fyrir karla og er í 99% tilvika veitt af körlum, sem þýðir að hún er sniðin að þörfum og áherslum karla." Er ekki tilgangur fjármálaþjónustu einfaldlega sá að viðskiptavinurinn og þjónustuaðilinn hagnist báðir; skiptir kynið þá máli?

„Já, það skiptir máli, því að ég vil meina að vegna þess hversu gríðarlega karlægur þessi geiri er, sjá menn þar ekki þau tækifæri sem hafa myndast í hinum frjóa jarðvegi kvenna. En að auki hugnast mörgum kvenkyns viðskiptavinum ekki að taka þátt í þessum geira á þessum gríðarlega karllægu forsendum. Þarna er gap á markaðinum.

Við sjáum tækifæri til fara þarna inn og brúa þetta bil. Við sem stöndum að Auði Capital erum langflest með gríðarlega mikla reynslu í fjárfestingastarfsemi og við viljum færa þá tegund starfsemi í þessa nýju veröld. Tilurð okkar ýtir við fjölmörgum konum sem vilja fara fyrir eigin fjármunum, því að fram er kominn aðili sem þeim hugnast miklu betur að eiga viðskipti við en áður stóð til boða.”

En ef þið náið eftirtektarverðum árangri með kvenlægri nálgun, er ekki viðbúið að hin fjármálafyrirtæki geti án sérstakrar fyrirhafnar boðið upp á sambærilega þjónustu sem miðast að konum?

„Svo þarf ekki að vera því þetta snýst mjög mikið um kúltúr fyrirtækja. Við erum óhræddar við að setja kvenlæg gildi í þjónustuframboð okkar og kúltur en fjárfestingarstarfsemi bankanna hefur aðra ásýnd. Við erum ekki að stofna fyrirtæki sem ætlar að finna hjólið upp á nýtt og mála allt bleikt og rósótt, því fer fjarri. Þetta snýst um að fara inn í heim sem er gríðarlega karllægur, eins og fjárfestingaheimurinn er, og gæða hann aðeins kvenlegri gildum til að nálgast nýjan markhóp sem er að byggjast geysihratt upp.

Vissulega væri áskorun fyrir fjármálageirann að nálgast konur með fjárfestingatengdri þjónustu án þess að skaða núverandi viðskiptalíkan, en það líkan hefur notið mikillar velgengni og því erfitt að sjá af hverju fyrirtækin skyldu breyta því og hverfa frá fyrri nálgun. Þar að auki menn breyta menn ekki um aðferðafræði á einni nóttu. Ég held að það væri mjög erfitt að gera á trúverðugan hátt á mjög skömmum tíma. En vissulega held ég að ef horft er lengri tíma muni fjárfestingaarmur fjármálageirans átta sig á þessum vaxandi og áhugaverða markhóp og þá muna þeir reyna að aðlaga sig og nálgast hann.”

Óttist þið að góður árangur muni laða fram hermikrákur?

„Við eigum ekki von á öðru en samkeppni, en það er af hinu góða og við óttumst hana ekki. Við teljum okkur hafa fram að færa arðbæra viðskiptahugmynd og viðbrögðin fram að þessu hafa verið með ólíkindum. Okkur finnst einkar ánægjulegt að ekki aðeins konum hugnast að eiga viðskipti við fjármálafyrirtæki sem stýrt er og í eigu kvenna, heldur hafa fjölmargir karlar, ekki síst þeir eldri, reynst hafa mikinn áhuga á eiga við okkur viðskipti. Ég held nefnilega að málið snúist ekki um konur gegn körlum, heldur um gildismat.”

Ábatasöm viðskipti og áhugaverður markhópur

Það sjónarmið heyrðist þegar tilkynnt var um stofnun Auðar Capital að samkeppnisaðilar myndu fagna ykkar á þeim forsendum að nú gætu þeir vísað þeim konum sem þeir vildu ekki eiga viðskipti við af einhverjum sökum til ykkar án þess að blettur félli á ímynd þeirra. Hvað er hæft í þessu að þínu mati?

„Þetta finnst mér mjög áhugavert, því hafi þetta viðhorf hefur komið fram lýsir það því að einhverjir karlar telji að konur hafi ekkert fram að færa í viðskiptum, hafi ekki áhuga á að sýsla með fé og séu ekki að standa í fjárfestingum. Þannig afgreiða þeir málið án þess að horfa betur á það sem er að gerast.

Þessi viðhorf er nákvæmlega ástæðan fyrir því að Auður Capital er til, vegna þess að þarna er gap á markaði og það er heilmikill ábati í því fólginn að sinna þessum viðskiptum og þessum markhópi. Það þarf að nálgast hann aðeins öðru vísi en hinn hópinn og menn gera það svo sannarlega ekki með þessum viðhorfum.”

Annað úr svipaðri átt. Þið náðuð á dögunum þeim markverða árangri að safna 3,2 milljörðum króna í fjárfestingarsjóðinn Auði I frá 21 fagfjárfesti, þar á meðal mörgum af stærstu lífeyrisjóðunum. Rætnar tungur héldu sumar fram að svo góður árangur á þrengingartímum í efnahagsmálum hlyti að stafa af því að fjárfestarnir kynnu ekki við annað en að styðja verkefni sem bæri með sér pólitíska rétthugsun; hvernig svararðu viðhorfum sem þessum?

„Ég held að þetta endurspegli viðhorf mjög fárra aðila og í raun dæmi þau sig sjálf. Ég er sannfærð um að fjárfestingarákvarðanir þeirra sem lögðu fé í Auði I hafi alfarið verið byggðar á köldu og faglegu mati á því að áætlanir okkar fela í sér gott fjárfestingartækifæri og engu öðru. Mörgum finnst vinkillinn mjög áhugaverður og telja hann fela í sér nýja hugsun.

Ég held líka að margir hafi litist vel á það teymi sem við höfum verið sett saman og býr yfir mikilli reynslu og þekkingu. Að reyna að sverta þann góða árangur endurspeglar ákveðna þröngsýni og vankunnáttu þeirra sem láta ummælin falla, þar sem eitthvað er útmálað sem minna áhugavert vegna þess að konur koma við sögu. Slík viðhorf lýsa best viðhorfum þeirra sem svo mæla og í besta falli má segja þau kjánaleg.”

Hefði þurft kvenlægari gildi með

Kannanir hafa sýnt fram á áhættufælni kvenna í viðskiptum. Fyrir vikið eru þær ólíklegri en karlar til að sigla fyrirtækjum í gjaldþrot, en sumir vilja meina að viðskipti þeirra skili lægri hagnaði af sömu ástæðu. Hvað finnst þér um þetta sjónarmið?

„Ég held að þetta fari oft saman, þ.e. áhætta og ávöxtun. En ef við horfum á ástandið hérlendis seinustu árin, þar sem gríðarleg áhættusækni hefur ríkt, sjáum við skýr merki þess í dag, hverjar afleiðingar hennar geti verið. Ég spyr: Er það endilega betra að taka rosalega áhættu, græða svakalega og tapa svo öllu og rúmlega það, heldur en að taka minni áhættu, stíga varlega til jarðar og miða við að ná árangri til lengri tíma? Er sígandi lukka kannski aðeins betri heldur en ætla að sigra heiminn á augabragði? Ég held að sífellt fleiri myndu fallast á það að það sé gáfulegra að reka málin með meiri ró og skynsemi en gert hefur verið á liðnum misserum.”

Hafa íslenskir fjárfestar þá tekið tryllingslegar áhættur að þínu mati undanfarin ár?

„Það má segja að áhættumeðvitund margra hafi nánast horfið, alls ekki þó allra. En vissulega þarf á stundum að taka áhættur og konur eru tilbúnar til þess. En þær hafa virka áhættumeðvitund, vilja brjóta til mergjar verkefnið, hafa meiri þolinmæði og eru tilbúnar til að byggja upp og hafa ábata af því sem þær gera til lengri tíma. Karlar hafa hins vegar oft skammtímasjónarmið að leiðarljósi, sem getur vissulega átt rétt á sér, en hins vegar þarf það að haldast í hendur við áhættumeðvitundina.”

Telurðu að öðru vísi væri um að litast í íslensku viðskiptalífi ef konur hefðu haldið þar um stjórnvölinn seinustu ár?

„Þetta er góð spurning en þó er sennilega ómögulegt að svara henni. Það hefði þó eflaust ekki verið verra að hafa meira af kvenlægari gildum með þeirri stefnu sem rekin hefur verið á liðnum árum.”

Á ráðstefnunni Virkjum fjármagn kvenna sem haldin var í liðnum mánuði sagði viðskiptaráðherra ekki útilokað að settur yrði kynjakvóti á atvinnulífið ef fyrirtæki nýttu ekki krafta kvenna frekar en nú þekkist. Konur á ráðstefnunni tóku þessari hugmynd fálega, þó að henni hafi m.a. verið hrint í framkvæmd í Noregi, þar sem skilyrt er að lágmark 40% stjórnarmanna í fyrirtækjum skuli vera konur. Hver er þín skoðun um atvinnulífið verði skikkað til að rýma fyrir konum?

„Ég er alfarið á móti því og tel að markaðurinn muni leysa þennan vanda, því fyrirtæki munu án efa átta sig á þeim efnahagslega ávinningi sem felst í því að nýta betur þekkingu og hæfni kvenna við stefnumótandi ákvarðanatökur. Það eina jákvæða við norsku leiðina er að breytingin gerist strax, en ég held að þessi leið sé ekki góð til lengri tíma litið. Þarna er verið að þvinga breytingu í gegn og koma á ákveðnu kerfi með boðum og bönnum og ég er viss um að það sé óhyggilegt og að alls kyns vandamál muni koma upp í framhaldinu. Það tekur lengri tíma fyrir markaðinn að finna lausn en ég er sannfærð um að hún verði betri, og vil því fara þá leið fremur en að gripið verði til valdboðs.”

Hræringar geta af sér ný tækifæri

Þegar þið stofnið fyrirtækið er staðan sú að samdráttur er í efnahagslífinu, lausafjárskortur á markaði, hlutabréfaverð er að hrapa niður o.s.frv. Stofnuðu þið ekki fyrirtækið á versta mögulega tíma?

„Við byrjuðum að undirbúa stofnun fyrirtækisins fyrir um ári og allt þetta sem þú lýsir hefur gengið yfir á undirbúningstímanum. Ástandið er vissulega erfitt og það er miður að horfa upp á fólk sem hefur farið mjög illa vegna niðursveiflu. Staðreyndin er samt sem áður sú að fyrir fyrirtæki á borð við Auður Capital og þá starfsemi sem við rekum er núverandi tími mjög góður til að taka til starfa. Við stundum fjárfestingatengda starfsemi og það er sama hvert litið er, fyrir utan hrávöru á borð við olíu og gull er nánast allt á markaði, fyrirtæki og hlutabréf, ódýrara en það var fyrir t.d. einu ári síðan.

Þegar hlutirnir eru nær botni en toppi er miklu áhugaverðara að fara inn á markaðinn og það sem gengið hefur á að undanförnu hristir gífurlega upp í öllu kerfinu. Það kann að vera óþægilegt fyrir suma meðan það gerist en út úr hræringunum koma ný tækifæri og ástandið getur af sér nýjar hugmyndir. Við erum líka svo heppin að hafa engin lík í skottinu; ekki með nein töp á bakinu, risalán eða ónýtar fjárfestingar. Þannig að hvernig sem á það er litið er tímasetningin til að taka til starfa alveg frábær.”

Fór samt ekkert um ykkur þegar syrti í álinn á markaði?

„Vissulega fór um okkur, við fylgjumst grannt með  þróun á markaði og gerum ekki lítið úr niðursveiflunni, en það þýðir ekkert að fara á taugum. Við höfum náð að sjá tækifærin í öllu saman og halda ró okkar. Við höfum ávaxtað okkar pund vel og erum í geysilega góðum málum. Okkur hefur gengið vel að fóta okkur í þessu umhverfi og í þeim efnum skipti máli að fara af stað með hreint borð. Þau verkefni og fyrirtæki sem koma fram á tímum sem þessum eru oft þau sem ganga best í næstu uppsveiflu.”

Vanrækir ekki lengur kvenlegar hliðar

Þú hefur rætt um í viðtölum að vera gefin fyrir áskoranir og þrífast vel í umhverfi þar sem slíkar séu í boði. Er stofnun Auðar Capital ekki stærsta áskorunin til þessa?

„Áskoranirnar hafa margar verið stórar, hver á sínum tíma og þegar þær eru metnar þarf að setja hlutina í samhengi, en á þessari stundu finnst mér Auður óneitanlega vera sú stærsta. Viðfangsefnið er öðru vísi en allt annað sem ég hef tekið mér fyrir hendur og sú sérstaða er óneitanlega hluti af því hversu gríðarlega skemmtilegt og spennandi mér finnst verkefnið.

Ég hef ánægju af að fara ótroðnar slóðir og hef lítið velt fyrir mér karllægum og kvenlægum gildum í gegnum tíðina, aðeins einbeitt mér að verkefnunum. En það er svo merkilegt að ég uppgötvaði þegar ég varð eldri og þroskaðri að þegar farið er í gegnum lífið með þessum hætti, þ.e. að hafa mikið keppnisskap, vera árangursdrifin og leita uppi stöðugt nýjar áskoranir, vanrækir maður ákveðnar kvenlegar hliðar.

Ég held að í Auði Capital finni ég nýja áskorun þar sem mér tekst að sameina alla ofangreinda þætti, hið harða og hið mjúka.”