Slitastjórn VBS fjárfestingarbanka vísaði í sumar ákveðnum atriðum sem áttu sér stað í eignastýringu bankans til frekari rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Um er að ræða sölu á fasteignaveðtryggðum veðbréfum sem VBS gaf út á verk sem bankinn hafði fjármagnað sjálfur til viðskiptavina í eignastýringu bankans.

Gerningarnir áttu sér stað með þeim hætti að VBS tók að sér að fjármagna verktaka og tók veð í þeim fasteignum sem verktakarnir ætluðu að byggja. Fyrir þetta tók VBS þóknanatekjur. Veðskuldabréfunum sem gefin voru út á fasteignirnar var síðan þinglýst líkt og þær væri nánast fullbyggðar og þau síðan seld inn í eignastýringu VBS. Fyrir þetta tók bankinn þóknun frá viðskiptavinum eignastýringarinnar. Síðar kom í ljós að einungis var búið að steypa grunna fyrir mörg þeirra húsa sem verktakarnir ætluðu að byggja þegar veðskuldabréfunum var þinglýst. Viðskiptavinir eignastýringar VBS hafa tapað miklum fjármunum vegna þessa. Flest verkefnin sem um ræðir voru á Suðurnesjunum, í Flóahreppi og á Akureyri.