Ópið
Ópið

Málverkið Ópið eftir norska stórmálarann Edvard Munch verðu selt á uppboði hjá Sotheby's í New York á næstunni. Búist er við að verkið fari á í kringum 80 milljón dali, rétt um einn milljarð íslenskra króna. Gangi þær væntingar eftir verður þetta með dýrustu málverkum sem seld hafa verið hjá uppboðshúsum.

Dýrasta verkið til þessa er verk eftir Pablo Picasso sem fór á 106 milljónir dala hjá uppboðshúsi Christie's í New York í maí fyrir tveimur árum.

Í netútgáfu breska dagblaðsins Guardian er haft eftir Simon Shaw, yfirmanni nútímalistadeildar Sotheby's, að verk Munchs sé lýsandi fyrir nútímalistina. Þá sé það ekki minni heiður að eintakið er það eina sem er í einkaeigu. Eigandi þess er norski auðkýfingurinn Petter Olsen, sem tengist norsku skipafélagi. Faðir hans, Thomas, var vinur Munchs.

Edvard Munch
Edvard Munch

Munch gerði nokkrar útgáfur af Ópinu á árunum 1893 til 1910 og er sú sem Olsen á frá árinu 1895. Verkið er málað í pastellitum ólíkt hinum. Tvær gerðir verksins eru olíumálverk og eru þau í eigu listasafns Noregs. Þriðja útgáfan er steinþrykk af Ópinu.