„Það er viðkvæmt að vinna með vörumerki sem er þjóðareign,“ segir Kristján Geir Gunnarsson, sölu- og markaðsstjóri Nóa Síríus. Fyrirtækið hefur breytt stærðinni á Ópal- og Tópas-pökkunum. Þeir voru áður 60 grömm en verða eftirleiðis 40 grömm. Þetta jafngildir því að nýju pakkarnir eru 33,3% léttari. Neytendur hafa verið óhræddir við að láta í sér heyra.

Kristján Geir Gunnarsson hefur verið ráðinn sem markaðsstjóri Nóa Síríus
Kristján Geir Gunnarsson hefur verið ráðinn sem markaðsstjóri Nóa Síríus
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Viðskiptablaðinu hefur borist myndir af pökkunum þar sem þeir sýnast jafn stórir þótt innihaldið í öðrum sé helmingi minna. Kristján Geir segir það ekki rétt. Ef rýnt er í pakkana sjáist að sá léttari er mjórri. Þá hafa töflurnar sömuleiðis verið minnkaðar.

„Maður finnur muninn þegar haldið er á pökkunum, þeir eru handhægari,“ segir Kristjan og bendir á að starfsmenn fyrirtækisins hafi unnið að því að hreinsa gömlu pakkana úr hillum verslana áður en þeir nýju koma á markað í vikunni.

Útsöluverð pakkanna lækkar um 21%. Það er örlítið minna en sem nemur sjálfri þyngdarminnkuninni. Ástæðan fyrir því er sú að kostnaður við pökkun og umbúðir minnkar hlutfallslega minna við breytinguna. Þá er tekið tillit til almennra verðbreytinga. „Við ráðum eðlilega engu um það á hvaða verði pakkarnir eru seldir í verslunum,“ segir Kristján Geir.

Í tilkynningu frá Nóa Síríusi kemur fram að meginástæðan fyrir þeirri ákvörðun að koma til móts við óskir neytenda sem hafa talið töflurnar óþægilega stórar og að umbúðirnar mættu vera handhægari. Þá sé líka komið til móts við þá sem söknuðu upprunalegu 20 gramma umbúðanna.

Ópal
Ópal