Orkumálaráðherrar OPEC ríkjanna gera ráð fyrir að eftirspurn eftir olíu muni aukast vegna mikils hagvaxtar í heiminum á næsta ári og að verðið muni að meðaltali fara í 50 Bandaríkjadali á tunnu. Orkumálaráðherrar OPEC ríkjanna, sem koma saman á fundi samtakanna í Kúveitborg í dag, halda þessu fram en það stangast á við markaðsspár þar sem búist er við því að eftirspurn eftir olíu muni dragast saman og verð lækka snemma á næsta ári.

Ráðherrar ríkjanna segja að aukin neysla í Kína, betri efnahagsleg staða Bandaríkjanna en búist var við og horfur á tímabundnum lokunum olíuhreinsunarstöðva vegna viðhalds hafi í för með sér að verðið muni haldast á svipuðu róli og nú er jafnvel þó OPEC ríkin framleiði áfram 30 milljónir tunna daglega, sem er mesta framleiðsla í 25 ár.