Opec, samtök olíuframleiðsluríkja, hafa frestað ákvörðunum um frekari niðurskurð í framleiðslu til að hækka verð. Þó kann að fara svo að ákvörðun um niðurskurð verði tekin á fundi samtakanna í Alsír þann 17. desember, að því er segir í FT. Þar segir ennfremur að Chakib Khelil, orkumálaráðherra Alsír og forseti Opec, hafi gefið í skyn að samtökin hefðu áhyggjur af frekari lækkun olíuverðs.

Eftirspurn eftir Olíu hefur minnkað mikið. Nýjar tölur frá Bandaríkjunum sýna að hún minnkaði til að mynda um 13% í september sl., en Bandaríkin eru stærsti viðskiptavinur Opec-ríkjanna. Að sögn FT er þetta mesti samdráttur frá því í águst 1980 og eftirspurnin hefur ekki verið minni í 12 ár.

Verð á olíu hefur hrapað á síðustu mánuðum. Það náði hámarki í 147 dölum í júlí í sumar en var á rúmir 54 dalir á föstudag.