OPEC ætlar sér ekki að auka olíuframleiðslu en ýmsir aðilar innan samtakanna hafi látið að því liggja að auka þurfi framleiðslu til að ná verði á olíu niður.

Olíumálaráðherrar og aðrir forystumenn OPEC safnast nú saman í Vínarborg en fundur OPEC hefst þar á miðvikudag. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

„Ég geri ekki ráð fyrir að OPEC íhugi það að auka framleiðslu sína. Þá værum við að mæta eftirspurn sem er ekki til,“ sagði Chakib Khelil, forseti samtakanna. Hann útilokaði að olíuframleiðsla aðildarríkjanna  yrði aukinn til þess að ná niður heimsmarkaðsverði.

Khelil segir verð á hráolíu hafi hækkað vegna lækkunar dollarans sem geri það að verkum að fjárfestar kaupi frekar olíu og gull en gjaldeyri. Þá sé einnig óstöðugleiki í alþjóðakerfinu sem orsaki hátt olíuverð.

Góð birgðastaða í Bandaríkjunum

Á miðvikudag má búast við tölum um birgðastöðu hráolíu í Bandaríkjunum en þegar hefur lekið til fjölmiðla að hún talin mjög góð.

Olíuverð fór hátt í 104 bandaríkjadali í New York í gær eða 103,95 dali. Við lokun markaða kostaði tunnan 102,45 dali.

Í morgun lækkaði olíuverð í London þegar Brent olíutunnan fór í 100,12 dali.