Merk skref voru stigin á fundi Samtaka olíuútflutningsríkja (OPEC) á fundi þeirra í gær þegar ákveðið var að skrúfa frá tappanum og auka olíuframleiðslu. Þrjú ár eru síðan OPEC-ríkin hreyfðu síðast við olíuframleiðslu.

Í netútgáfu bandaríska dagblaðsins New York Times segir að ekki sé líklegt að ákvörðunin muni skila sér í verðlækkun á olíuverði til lengdar þar sem þeir framleiðslukvótar sem OPEC-ríkin komu sér saman um í gær eru ekki langt frá því sem ríkin dæla frá sér nú þegar.

Heimsmarkaðsverð á hráolíu hefur legið í kringum 100 dali á tunnu síðasta mánuðinn. Það lækkaði skyndilega á fjármálamörkuðum í Asíu í morgun vegna svartsýni fjárfesta sem telja ólíklegt að þjóðarleiðtogar evruríkjanna geti komið sér saman um að leysa úr skuldavanda þeirra. Verðið stendur nú í rétt tæpum 96 dölum á tunnu.