Ríki innan Samtaka olíuútflutningsríkja (OPEC) sem eiga í efnahagserfileikum, s.s. Venusúela og Íran eru að beita Sádí-Arabíu þrýstingi um að ríkin minnki olíuframleiðslu. Sádí-Arabía, sem er stærsti framleiðandinn innan OPEC, hefur þó hafnað að takmarka framleiðsluna enn frekar nema ríki utan OPEC, m.a. Rússland, taki einnig þátt í takmörkununum.

OPEC ríkin hittast á föstudag í Austurríki til að ákveða framleiðslumagn olíu fyrir næstkomandi ár. OPEC ríkin vildu draga úr framleiðslu á fundi samtakanna í fyrra en Sádí-Arabía hindraði að beiðnin mundi ná fram að ganga.

Olíuverð hefur ekki verið lægra í um sex ár, framleiðsla er töluvert umfram eftirspurn og birgðasöfnun helstu olíuríkja er orðin gríðarleg. Þetta hefur haft neikvæð áhrif á efnahag þeirra landa sem reiða sig á olíuútflutning.