OPEC-ríkin hafa náð samkomulagi um að minnka framleiðslu á olíu. Það verður því í fyrsta sinn í 8 ár þar sem að OPEC kveður á um að ríkin dragi saman framleiðslu. Bloomberg greinir frá.

OPEC-ríkin koma til með að draga úr framleiðslu sinni um 1,2 milljón olíuföt á degi hverjum og því verður framleitt um 32,5 milljón á dag í heildina. Brent-hráolíuvísitalan hefur hækkað um 8% það sem af er degi og er fatið því metið á ríflega 50 dollara.

Eftir þrjá mánuði af samningsviðræðum náðu þrír stærstu olíuframleiðendurnir; Sádí-Arabía, Írak og Íran að höggva á veigamesta hnútinn, þ.e. hver myndi minnka mest við sig. Líklegt er talið að ríki fyrir utan OPEC minnki einnig við framleiðslu um 600 þúsund föt á dag.

Haft er eftir Amrita Sen, olíusérfræðing hjá Energy Aspect, í frétt Bloomberg að: „Þetta ætti að vekja þá, sem hafa talað um dauða OPEC samtakanna, úr rotinu.“

OPEC eru alþjóðleg samtök sem í eru olíuframleiðsluríkin Alsír, Angóla, Ekvador, Íran, Írak, Katar, Kúveit, Líbýa, Nígería, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Sádí-Arabía og Venesúela.