Á neyðarfundi í dag samþykktu OPEN ríkin að minnka olíuframleiðslu sína um 1,2 milljón olíuföt á dag, en það er meira en búist var við, segir í frétt Dow Jones.

Minnkunin mun taka gildi 1. nóvember og mun ná til allra aðildarríkjanna nema Írak. Heildarframleiðsla ríkjanna minnkar því um 4,3% frá því í september, eða 26,3 milljón olíuföt á dag í stað 27,5 milljóna.

OPEC ríkin hafa ekki samþykkt framleiðsluminnkun síðan árið 2004.

Sádi-Arabía mun bera mesta þunga af minnkuninni, eða 380 þúsund olíuföt á dag.