OPEC hefur ákveðið að auka framleiðslu á olíu um tvær milljónir tunna á dag. Samkomulag um þetta náðist fyrr í dag á fundi aðildarríkja samtakanna í Beirút. Ráðamenn OPEC gera ráð fyrir að auka framleiðsluna um hálfa milljón tunna í ágúst komandi, en þessar aðgerðir eru taldar nauðsynlegar til þess að ná verði á olíutunnunni niður fyrir 40 Bandaríkjadali.

Samtökin gera hins vegar ráð fyrir að halda annan fund í júlí þar sem stefnan kann að verða endurskoðuð. Með niðurstöðu fundarins nú er farið sáttaleiðina milli annars vegar S-Arabíu sem vildi auka olíuframleiðslu meira en raun varð á, og svo hins vegar Íran og Venesúela sem vildu minni framleiðsluaukningu.

Olíuverð hækkaði eilítið í kjölfar fréttanna þar sem framleiðsluaukningin var talin vera minni en nauðsyn krafði, en verð á olíutunnunni hefur verið að sveiflast í kringum 40 dollara. Ástæður þess að olíuverð hefur haldist svona hátt eru einkum tvær: Í fyrsta lagi hafa öryggismál í Miðausturlöndum ekki verið til fyrirmyndar á undanförnum misserum, þar sem hryðjuverkaógn hefur verið áberandi. Í öðru lagi hefur verið vaxtarkippur í hagkerfi heimsins sem eykur þrýsting á meiri olíunotkun en ella.