Samtök olíuútflytjenda, OPEC, halda nú sinn fyrsta formlega fund á árinu - þann fyrsta af tveimur sem haldnir eru árlega - og eru samankomin í Vín í Austurríki. Samkvæmt þeim er hráolíumarkaðurinn að þokast í rétta átt, og offramboð hráolíu er að hverfa. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg .

Embættismenn Sádí-Arabíumanna hafa ekki tjáð sig mikið við fjölmiðla eftir fundinn. Þó hafa ráðherrar Nígeríu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna (S.A.F.) sagst bjartsýnir á að aðferð þeirra, sem snerist um að leyfa lágu verði að gera út af við offramboðið, væri að virka sem skyldi.

Ofan á það hefur eftirspurn fyrir hráolíu farið hækkandi á síðustu misserum samkvæmt þeim, sem ýtir undir það að markaðurinn jafni sig út á ný og nái ásættanlegum verðum fyrir framleiðendur og olíufyrirtæki.

„Frá byrjun árs og þar til nú hefur markaðurinn leiðrétt sig upp,“ sagði olíumálaráðherra S.A.F., Suhail Al Mazrouei. „Markaðurinn mun, með tíma, festa sig á verð sem er sanngjarnt fyrir bæði neytendur og framleiðendur.“

Ekki voru þó allir OPEC-fulltrúarnir sammála. Eulogio Del Pino, orkumálaráðherra Venesúela, sagði hækkunina hafa meira með það að gera að olíuframleiðsla hafi raskast víða um heim fremur en að OPEC hafi einsett sér einhverja almenna herkænsku og fylgt henni eftir.

Frá því að olíuverð náði sínum allra lægsta punkti í meira en 20 ár í febrúar hefur það hækkað um yfir 85% til dagsins í dag. Brent-hráolía kostar þá tæpa fimmtíu Bandaríkjadali á hverja tunnu og West Texas rúmlega 48 Bandaríkjadali.