Olíuverð féll í gær sökum væntinga um að bandarískar olíuhreinsunarstöðvar myndu auka framleiðslu sína og einnig ummæla Mohammed al-Hamli, forseta samtaka olíuframleiðsluríkja (OPEC), um að OPEC væri reiðubúið til að framleiða meiri olíu ef þess yrði þörf. Fatið af Brent Norðursjávarolíu lækkaði í gærmorgun um 60 sent, niður í 77,04 dali, eftir að hafa jafnframt fallið í verði um 3% síðasta föstudag.

Forseti OPEC segir að samtökin hafi áhyggjur af þeim afleiðingum sem hið háa olíuverð á heimsmarkaði gæti haft fyrir vöxt í alþjóðahagkerfinu, enda þótt OPEC telji að um þessar mundir séu litlar vísbendingar um að hátt orkuverð hafi hamlað hagvexti á heimsvísu. OPEC segir að ekki sé ljóst hvort þörf verði á framleiðsluaukningu af hálfu aðildarríkja samtakanna í lok þessa árs. Sérfræðingar telja hins vegar að ekki beri að draga of víðtækar ályktanir af þessum ummælum og ólíklegt sé að þau muni hafa mikil áhrif til lækkunar á olíuverði á næstu misserum.