Brimborg tekur við þýska bílamerkinu Opel þann 1. janúar næstkomandi í kjölfar skipulagsbreytinga á sölukerfi Opel. Bílamerkið hefur verið hjá Bílabúð Benna undanfarin ár en var áður hjá BL og þar áður hjá Ingvari Helgasyni.

Markmið þýska bílaframleiðandans er að sækja fram og auka hlutdeild Opel á Íslandi. Opel hefur unnið að miklum breytingum undanfarin misseri með einbeitta áherslu á þróun rafmagnaðra bíla með djarfri, stílhreinni, samtíma hönnun. Með rafmögnuðum áherslum stefnir Opel bílamerkið að því að vera í fararbroddi í orkuskiptum og í netsölu bíla á Íslandi.

Brimborg mun strax um áramótin taka yfir sölu nýrra Opel bíla, varahluta-, viðgerðar- og ábyrgðarþjónustu Opel að sögn Egils Jóhannssonar, forstjóra Brimborgar.

Hann segir að frá áramótum muni Brimborg bjóða Opel kaupendum fólks- og atvinnubíla víðtækari þjónustu sem felst m.a. í 7 ára ábyrgð eða að 140 þúsund km, 8 ára ábyrgð á drifrafhlöðu eða að 160 þúsund km, ókeypis lánsbíl við ábyrgðarviðgerð, vegaaðstoð um land allt, uppítöku á öllum gerðum notaðra bíla og kaup eða langtímaleigu nýrra Opel bíla.

„Hinn alþjóðlegi bílamarkaður er á tímamótum vegna netsölubíla og orkuskipta,“ segir Egill. „Við í Brimborg erum einstaklega spennt að sækja fram með Opel með áherslur á hagkvæma netsölu bíla og auka þannig úrval umhverfisvænna bíla sem ganga fyrir íslensku rafmagni og taka þannig þátt í að flýta orkuskiptum á Íslandi.“

Netsala á Opel og nýr sýningarsalur

Opel verður seldur í gegnum netið hjá Brimborg og mun nýr Opel vefur opna strax um áramótin með vefsýningarsal þar sem hægt er að skoða úrval bíla á lager eða í pöntun. Netsala skapar gríðarlega hagræðingu hjá Brimborg sem gerir kleift að bjóða upp á meira úrval rafmagnaðra bíla með ríkulegri staðalbúnaði og öflugri þjónustu á hagstæðara verði.

Nýr tímabundinn Opel sýningarsalur opnar einnig um áramótin á Bíldshöfða 8 í Reykjavík. Hönnun og framkvæmdir á framtíðar sýningarsal á sama stað eru hafnar og stefnt er að opnun hans á öðrum fjórðungi næsta árs. Þar verða Opel sérfræðingar til reiðu til að sýna nýja Opel bíla og bjóða upp á reynsluakstur. Brimborg Akureyri mun einnig bjóða Opel til sölu strax frá áramótum.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Bílar sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .