Aukna velsæld á heimsvísu má að mestu leyti rekja til opnara efnahagslífs, en 146 ríki heims búa nú við merkjanlega opnara efnahagsog atvinnulíf en áður, hafa bætt sig í fjórum meginþáttum efnahagsstoðarinnar: framtaksskilyrðum, fjárfestingarumhverfi, markaðsaðgangi og innviðum.

Sömuleiðis hafa lífsgæðin aukist frá 2009, en í 160 ríkjum af 167 hafa þau batnað á sviði heilsufars, menntunar og lífsskilyrða. Á heimsvísu er mun auðveldara nú að stofna til reksturs og ná að stækka við sig en það var fyrir áratug. Það tekur einnig til skattskila og skattheimtu, sem eru almennt einfaldari, skýrari og skilvirkari, sérstaklega fyrir atvinnulífið.

Það hefur leitt til betri framtaksskilyrða, en eins er allt fjárfestingarumhverfi á heimsvísu mun opnara en áður, sem hefur fjölgað tækifærum, bætt nýtingu auðlinda, mannafla og mannvits. Þar ber sérstaklega að nefna betri stofnanir og innviði, sem víða hafa styrkt eignarrétt, fjárfestavernd og að samningar standi. Þar hefur svo netvæðingin einnig breytt heilmiklu, bæði um rekstrarskilyrði og markaðsaðgengi, að ekki sé minnst á almenn lífsgæði.

Ísland í góðum málum

Þegar litið er til tölfræðinnar um Ísland hér til hægri sést að upp og ofan gengur á ýmsum sviðum. Þar er þó rétt að vara við því að línuritin um einstakar stoðir velsældarvísitölunnar eru án kvarða, en til vinstri við línurnar má sjá mestu dýfuna og til hægri mestu hæðirnar í einkunnagjöf Legatum. Sem sjá má er munurinn þar yfirleitt sáralítill.

Eigi að síður er auðvelt að sjá það á hringgrafinu hvar skórinn kreppir helst. Það er um fjárfestingarumhverfi og framtaksskilyrði. Að einhverju leyti kunna gögnin þar að endurspegla fyrra ástand, þar sem gerðar hafa verið töluverðar breytingar á framtaksskilyrðum á vegum hins opinbera og fleiri í pípunum.

Að einhverju leyti er þar einnig um eftirhreytur fjármagnshaftanna að ræða. Gleðiefnið í því hlýtur að vera að flestu því má breyta með nokkuð auðveldum og skjótum hætti, sem hlýtur að vera stjórnvöldum frekari brýning um það.

Sumpart er Ísland, líkt og flest Vesturlönd önnur, þó í þeirri öfundsverðu aðstöðu að velsældin er þar augljóslega reist á traustum grunni, þó eitthvað kunni að bjáta á um stundarsakir eða á einstökum sviðum. Eins er þar ekkl um mikið svigrúm að ræða til þess að bæta sig mikið, þegar landið er þegar í 10. sæti, án þess að það eigi að letja menn til frekari afreka í átt til aukinnar velsældar.

Hins vegar er sérstaklega athyglisvert að horfa til línuritsins um þróun velsældar á Íslandi, bæði hvað varðar einkunn og sætaröð. Jú, það má greina að upp úr 2009 dalar gengi Íslands eilítið, en þó ekki meira en eilítið. Fór þegar verst lét ekki lengra niður en í 15. sæti velsældar á heimsvísu, en var almennt á mjög svipuðu róli og nú.

Svo kannski það megi fara að gleyma því að hér varð hrun.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .