Centerhotels á alls sjö hótel sem öll eru staðsett miðsvæðis í Reykjavík en framkvæmdum á því áttunda sem er við Granda, er að ljúka eftir 2 til 4 vikur. Á þessum átta hótelum eru rúmlega 950 herbergi og eru tvö hótel opin. Plaza hótelið var upphaflega opnað á ný vegna fjölda innbrota í kjölfar lokunar og segir Kristófer Oliversson, eigandi og framkvæmdastjóri Centerhotels, að það gæti lokað aftur, en þar eru alls 255 herbergi.

Ef hótelið lokar væri Miðgarður eina hótel keðjunnar sem væri opið en þar eru 170 herbergi og hlutfall opinna herbergja af heildarherbergjum væri þá tæplega 18%. „Eins og staðan er núna safna menn skuldum til vors og vonast til að það fari að koma tekjur þá,“ segir Kristófer. Um 20-40 herbergi eru í útleigu að jafnaði á virkum dögum hjá Centerhotels eða um þrjú prósent af öllum herbergjum hótelsins og um sjö prósent af opnum herbergjum.

Í lok árs 2019 voru ársverk félagsins 225 en Kristófer segir að þurft hafi að segja flestum þeim starfsmönnum upp. Núverandi starfsmenn eru flestir á hlutabótaleiðinni en að svo stöddu rennur úrræðið út um áramót. Centerhotels högnuðust um 112 milljónir króna á síðasta ári og um 314 milljónir árið áður. Tekjur félagsins voru 4,7 milljarðar króna á síðasta ári. Handbært fé fyrirtækisins lækkaði um 165 milljónir á síðasta ári og nam 135 milljónum í lok árs.

Ferðamönnum fækkar á ný

Í ágúst fækkaði gistinóttum á hótelum um 64% milli ára, úr 504 þúsund í 180 þúsund, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Framboð hótelherbergja dróst saman um fimmtung á sama tíma og herbergjanýting var ríflega þriðjungur samanborið við 83% í ágúst á fyrra ári. Í ágúst fjölgaði gistinóttum greiddum af Íslendingum um 145%, samanborið við sama mánuð árið áður, og voru þær alls 94 þúsund. Í ágúst var fjöldi starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu um 20 þúsund sem er ríflega þriðjungsfækkun milli ára.

Í nýliðnum september fóru alls 28.317 farþegar um Keflavíkurflugvöll sem er 96% samdráttur samanborið við sama mánuð 2019. Í ágúst fóru rúmlega 134 þúsund farþegar um völlinn og 132 þúsund í júlí, en samdrátturinn var í báðum tilfellum 84% milli ára. Í júní voru farþegar um 29 þúsund og nam samdrátturinn rúmlega 96%. Það sem af er ári hafa rúmlega 1,3 milljónir manna farið um Keflavíkurflugvöll. Á sama tíma á síðasta ári höfðu 5,8 milljónir farþega farið um völlinn og er samdrátturinn 78% milli ára. Farþegum á Keflavíkurflugvelli fækkaði um fjórðung á síðasta ári samanborið við árið 2018.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .