Kristín Pétursdóttir, stjórnarformaður Virðingar, útilokar ekki að félagið sameinist öðrum fjármálafyrirtækjum í því skyni að nýta tækifæri sem felist í því að veita stóru viðskiptabönkunum þremur aukna samkeppni. „Þreifingar" hafa átt sér stað á milli Virðingar og annarra félaga þess efnis að félögin sameinist.

Er Virðing að skoða möguleika á því að sameinast öðrum félögum?

„Það eru meira og minna einhverjar þreifingar í gangi. Það eina sem ég get sagt er að við erum að skoða möguleika sem eru á markaðnum en það er ekkert sem er komið í fastan farveg af neinni alvöru," segir Kristín.

Telur þú að veita þurfi stóru viðskiptabönkunum þremur aukna samkeppni?

„Ég tel að það séu tækifæri til hagræðingar á markaðnum og það eru ýmsir möguleikar í þeim efnum og við erum að skoða þá," segir Kristín.

Þú neitar því ekki að Virðing sé að skoða möguleika á því að sameinast öðrum félögum til að veita stóru bönkunum aukna samkeppni?

„Við erum að skoða þá möguleika eins og aðrir," segir Kristín Pétursdóttir að lokum.

Í Kjarnanum sem kom út í dag er greint frá því að Virðing, auk fleiri félaga, hafi verið í viðræðum við MP banka um sameiningu.