Forsætisráðherra telur rétt að íhuga það að jafna atkvæðavægi landsmanna í þingkosningum í yfirstandandi vinnu á endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þetta kom fram í svari hennar við óundirbúinni fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, á þingi nú rétt í þessu.

Nefnd formanna stjórnmálaflokkanna hefur unnið að tillögum að breytingum á stjórnarskránni. Ákvæði um auðlindaákvæði og breytingu á embætti forseta og framkvæmdavaldi hafa verið nefnd til sögunnar. Unnar hafa verið viðhorfs- og rökræðukannanir til að sjá hvað almenningur telur rétt að beri að horfa til við téða vinnu.

Meðal þess sem var nefnt reglulega í þeirri vinnu var jöfnun atkvæðavægis. Vakti Þorgerður Katrín máls á þessu í óundirbúnum fyrirspurnum í dag. Fyrirhugaður er fundur í stjórnarskrárnefndinni næstkomandi föstudag og spurði Þorgerður hvort Katrín hefði hug á að taka þetta mál inn í þá vinnu.

„Hvað varðar jöfnun atkvæða þá var það ekki á upprunalegri áætlun minni það sem ég skipti vinnunni við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á tvö kjörtímabil. Sé áhugi fyrir því á vettvangi formanna að breyta þeirri áætlun, og taka þetta mál inn, þá er ég til í það,“ sagði Katrín.

Katrín sagði einnig að umræður sem hafa verið í gangi að undanförnu hafi leitt í ljós að mikill áhugi sé fyrir því að jafna atkvæðavægið. Eitt land, eitt kjördæmi hafi verið nefnt til sögunnar en einnig að breyta kjördæmaskipan til að jafna atkvæðavægi. Það var síðast gert árið 1999. Síðan þá hefur þingmönnum Norðvesturkjördæmis fækkað um tvo og Suðvesturkjördæmi grætt tvo á móti til að jafna atkvæðavægið. Enn er atkvæðavægi í Norðvestur þó mest.