Norður-Kórea segist vera opin fyrir viðræðum við Bandaríkin um að láta af þróun kjarnorkuvopna að því er The Wall Street Journal greinir frá .

Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, sagði sendinefnd frá Suður-Kóreu sem heimsótti fyrrnefnda landið að hann væri fús til þess að halda viðræður um kjarnorkuafvopnun og bætt samband við Washington. Að Norður-Kórea myndi jafnframt stöðva allar vopnaprófanir á meðan viðræður ættu sér stað en þetta er haft eftir embættismönnum í Suður-Kóreu.

Þá á Kim Jong Un einnig að hafa lýst yfir vilja til að funda með forseta Suður-Kóreu, Moon Jea-in í apríl sem myndi verða þriðji fundur milli leiðtoga ríkjanna tveggja frá upphafi.