Í dag birtist ný rannsóknarritgerð um lítil, opin hagkerfi í öldusjó alþjóðafjármála á heimasíðu Seðlabanka Íslands. Ritgerðin var unnin af Bjarna G. Einarssyni, Kristófer Gunnlaugssyni, Þorvarði Tjörva Ólafssyni og Þórarin G. Péturssyni.

Ritgerðin byggist á fyrri rannsóknum höfundanna á langri sögu fjármálalegs umróts á Íslandi, mikilvægi svokallaðrar fjármálasveiflu og í hve ríkum mæli hún ræðst af alþjóðlegum fjármálaskilyrðum.

Um er að ræða 73. rannsóknarritgerðina á vef Seðlabankans. Í þessari ritgerð er meginniðurstöðum fyrri rannsókna komið á framfæri, auk þess sem brugðið er upp mynd af því hvernig lítil opin hagkerfi á borð við það íslenska eru undirorpin þeim þróttmiklu kröftum sem leynast í öldusjó alþjóðafjármála.

Nýliðin fjármálakreppa er einungis dæmi um það hvernig íslenskur efnahagur ferðast á milli öfga. Í ritgerðinni er sýnt fram á að einkenni íslenskrar efnahagsframvindu mótast einkum af lágtíðni sameiginlegra fjármálasveiflna. Sú sveifla er mun lengri en hin hefðbundna hagsveifla og efnahagsþróunin virðist því allt önnur eftir því í hvaða fasa fjármálasveiflan er hverju sinni.

Nær allir hátoppar fjármálasveiflunnar virðast til að mynda tengjast einhvers konar fjármálakreppu. Í ritgerðinni er sýnt fram á að Ísland er fjarri því að vera eyland í öldusjó alþjóðafjármála þar sem sviptingar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum virðast hafa verulega sterk áhrif hér á landi.

Ritgerðina má nálgast á vef Seðlabanka Íslands.