Opin Kerfi (OK) hafa náð samningum við eistneska tæknifyrirtækið Guardtime um viðamikla hýsingu á tölvubúnaði. Í samningnum felst að OK setja upp og þjónusta kjarnakerfi Guardtime í gagnaveri Verne Global í Reykjanesbæ.

Fram kemur í tilkynningu frá Guardtime að fyrirtækið var stofnað til að byggja upp nýjan staðal fyrir auðkenningu rafrænna undirskrifaðra gagna. Fyrirtækið hefur hlotið mörg alþjóðleg verðlaun fyrir afurð sína.

Þá segir í tilkynningunni OK að grunnur Guardtime liggi í því að eftir hakkaraárásir í Austur Evrópu árið 2005 hafi verið settur saman hópur í Eistlandi sem var byggður upp af neti arkitekta, forritara og öryggis sérfræðinga. Þeir komu saman til að hanna og byggja nýja lausn til að leysa aðsteðjandi vandamál. Hópurinn hannaði nýja lausn sem kallast „Keyless Signature Infrastructure (KSI)“. Fyrirtækið er staðsett á nokkrum stöðum í heiminum en meginstarfsemi er í Tallin, Eistlandi.