Í tilkynningu frá Opnum Kerfum kemur fram að Opin kerfi hafa um langan tíma selt og þjónustað Cisco búnað en Cisco Systems er stærsti framleiðandi í heiminum á netbúnaði og netlausnum.

„Cisco gerir miklar kröfur til samstarfsaðila sinna og Opin kerfi hafa núna eftir viðamikla úttekt hlotið útnefningu sem Cisco Silver Partner en félagið er eini Cisco Silver Partner á Íslandi. Þetta er mikil viðurkenning og staðfestir að þekking og þjónusta Opinna kerfa á Cisco lausnum er í fremstu röð,“ segir í tilkynningunni.

Ennfremur voru Opin kerfi valin Premier Partner ársins 2007 fyrir Noreg og Ísland sem og Nordic-svæðið, sem nær til Norðurlandanna og Eystrasaltsríkja, á Cisco Partner ráðstefnu sem haldin var í byrjun apríl.

Í framhaldi af því vali voru Opin kerfi meðal tilnefndra sem besti Premier Partner í Evrópu.

„Við höfum lagt mikla áherslu á Cisco lausnir undanfarin ár og byggt upp viðskiptasambönd og þekkingu með markvissum hætti. Sú vinna er nú að skila sér með þessum hætti og erum við að sjálfsögðu afskaplega ánægð með þessar viðurkenningar og Silver Partner stöðuna. Viðurkenningar sem þessar efla okkur svo sannarlega til frekari dáða,“ segir Agnar Már Jónsson forstjóri Opinna kerfa í tilkynningunni.