Þrátt fyrir 10 milljarða króna halla á samþykktum fjárlögum ríkisins fyrir næsta ár segir Landsbankinn að sú stefna stjórnvalda, að koma sterkt inn með innviðafjárfestingu á sama tíma og atvinnuvegafjárfesting er að dragast saman, sé ekki að takast sem skyldi.

Kemur þetta fram í nýrri Hagsjá Landsbankans , sem fer yfir bæði hlutfall opinberrar fjárfestingar af vergri landsframleiðslu frá aldamótum sem og hlutfall samneyslunnar af VLF, sem þeir segja hafa náð sínum hæsta punkti árin 2003 og 2008.

Síðan þá hafi hlutfallið lækkað fram til ársins 2016, en hækkað síðan, en í fyrra hafi hlutur samneyslunnar af VLF verið 1,3 prósentustigum minna en var árið 2008. Þannig hafi samneyslan aukist um 2,8% á fyrstu þremur fjórðungum þessa árs, en opinber fjárfesting hafi hins vegar dregist saman um 5,8% á sama tíma.

Síðustu ársfjórðunga hafi svo heldur dregið úr vexti samneyslunnar en aukningin hafi verið um það bil 3% á ári síðustu fjórðunga. Áfram segir í Hagsjánni:

„Frá aldamótum hefur hlutfall opinberrar fjárfestingar af VLF verið að meðaltali 3,8% á ári. Hæstu gildin voru 5,1% á árunum 2000 og 2001 og lægsta gildið var 2,7% á árinu 2013. Gildið fyrir 2018 var 3,9% sem er nálægt meðaltali frá aldamótum.

Í gildandi fjármálastefnu og fjármálaáætlun stjórnvalda hafa verið yfirlýsingar um nauðsyn aukinnar opinberrar fjárfestingar, sérstaklega í innviðum. Sérstaklega hefur verið bent á að einmitt nú, þegar atvinnuvegafjárfesting er í lágmarki, sé lag fyrir hið opinbera til þess að stíga inn og láta til sín taka.“

Þrátt fyrir þær yfirlýsingar virðist sem opinber fjárfesting hafi dregist saman um tæp 6% á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins frá sama tíma á síðasta ári. Einnig dróst fjárfestingin saman um 6% á milli 2. og 3. ársfjórðungs í ár, en hún hafði stokkið upp á 4. ársfjórðungi í fyrra vegna afhendingar Hvalfjarðarganga.

Hallareksturinn í fjárlögum næsta árs nemur 0,3% af VLF, en svokallað óvissurúm vegna tilslökunar í fjármálastefnunni til ársins 2024 er 0,8%. Í Hagsjánni segir svo að lokum:

„Mikilvægt er að áform um aukna fjárfestingu hins opinbera á næstu misserum verði hrundið í framkvæmd tímanlega því annars er hætt við að þær komi til þegar hagsveiflan hefur snúist á ný og magni því hagsveifluna fremur en að vera hagsveiflujafnandi eins og ætlunin er.“