Opinber samkeppnisrekstur nær til flestra atvinnugreina og staða opinberra fyrirtækja er víðast hvar mjög sterk í þeim greinum sem þau starfa.

Um 70% opinberra stofnana og fyrirtækja telja sig vera á samkeppnismarkaði, og ríflega 40% veltu þeirra telst til samkeppnisreksturs. Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar Hagfræðistofnunar Háskólans á áhrifum opinberra fyrirtækja á samkeppni .

Ein af rannsóknaspurningunum er hvort fyrir hendi sé svokallað samkeppnishlutleysi milli opinberra fyrirtækja og annarra. Bent er á að Efnahags- og framfarastofnunin (e. OECD) mæli eindregið með því að að því sé stefnt, enda mikil samfélagsleg verðmæti fólgin í heilbrigðri samkeppni og þeirri hagkvæmni og góðu þjónustu sem hún almennt stuðlar að.

Kvarnast nokkuð úr lagalegu forskoti
„Af lauslegum samanburði við aðrar atvinnugreinar er freistandi að draga þá ályktun að þátttaka ríkis og sveitarfélaga í atvinnurekstri ýti alla jafna ekki undir samkeppni,“ segir meðal annars í skýrslunni.

Á síðustu árum er þó sagt að kvarnast hafi nokkuð úr lagalegu forskoti opinberra fyrirtækja á samkeppnismarkaði, að mestu, þökk sé innlendum og erlendum eftirlitsstofnunum. Slíkt hafi þó gengið hægt fyrir sig, og erfiðara sé að eiga við óformlegt forskot. Óbein ábyrgð á skuldum er þar nefnd sérstaklega.

Meðal þess sem gert hefur verið á undanförnum árum til að jafna leikinn er að setja fram eigendastefnu og markmið um afkomu, opinber samkeppnisrekstur hefur verið aðskilinn með stofnun dótturfélaga, dregið hefur verið úr eða greitt fyrir ríkisábyrgðir á lánum og stofnunum breytt í opinber hlutafélög.

Eignarhaldið setji áfram mark sitt á reksturinn
Í niðurlagi skýrslunnar eru vísbendingar sagðar um að öflug samkeppni skipti meira máli en eignarhald. Mestu máli skipti hins vegar að aðstæður fyrirtækja á samkeppnismarkaði séu jafnar. Þótt mikilvæg skref hafi verið stigin í að jafna út aðstæður opinberra og einkafyrirtækja á samkeppnismörkuðum megi enn finna stuðning af ýmsu tagi.

Þrátt fyrir að staðan hafi um margt batnað, og ýmsar leiðir hafi verið nefndar í skýrslunni til að jafna hana enn frekar, er eignarhaldið áfram sagt munu setja mark sitt á rekstur opinberra fyrirtækja. Beinir opinberir styrkir, lítil eða óljós arðsemiskrafa og lánsábyrgðir til opinberra fyrirtækja skekki enn samkeppnisstöðuna. Á móti geti þunglamaleg stjórnsýsla og mikill réttur starfsmanna þvælst fyrir í opinberum rekstri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .