*

laugardagur, 16. nóvember 2019
Innlent 27. september 2019 11:23

Opinber gjöld upp um 3,7%

Alls voru 194 milljarðar króna lagðar á lögaðila í opinber gjöld í fyrra og jókst um 7 milljarða milli ára.

Ritstjórn
Ríkisskattstjóra hefur lokið álagningu opinberra gjalda fyrir 2019.
Haraldur Guðjónsson

Opinber gjöld sem lögð voru á lögaðila árið 2018 námu tæplega 194 milljörðum króna, að því er kemur fram í frétt á vef Ríkisskattstjóra sem hefur lokið álagningu opinberra gjalda 2019. Gjöldin jukust um tæpa sjö milljarða króna frá árinu á undan sem samsvarar 3,7% aukningu milli ára. 

„Fjöldi lögaðila á skattgrunnskrá á landinu öllu við lok álagningar 2019 var 62.742 en þar af voru 45.492 skattskyld félög og sameignarfélög og 17.250 lögaðilar sem undanþegnir eru tekjuskatti. Fyrir lok álagningar höfðu 37.197 framtöl borist eða 81,77% framtala. Í fyrra höfðu 81,54% framtala borist fyrir lok álagningar. Gjöld 8.208 lögaðila voru áætluð sem er 18,04% lögaðila á skattgrunnskrá. Fyrir ári voru gjöld 19,41% lögaðila á skattgrunnskrá áætluð,“ segir enn fremur í frétt Ríkisskattstjóra. 

Endurgreiðslur til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nam tæpum 3 milljörðum króna sem er aukning upp á 845 milljónir króna frá árinu á undan. Þá fengu nýsköpunarfyrirtæki skattfrádrátt að upphæð 608 milljónir króna. 

Opinber gjöld er skipt niður í átt flokka og var dreifing þeirra eins og hér segir:

Tryggingargjald nam 102 milljörðum króna og hækkaði um 9,4% milli ára.

Tekjuskattur nam 72 milljörðum króna og dróst saman um 3,4% milli ára.

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki var  10,6 milljarðar króna og hækkaði um 12,5%

Fjársýsluskattur var 3,3 milljarðar króna og hækkaði um 2,2%.

Sérstakur fjársýsluskattur var 2,8 og dróst saman um 23,8% frá fyrra ári.

Fjármagnstekjuskattur var 1,8 milljarður króna og jókst um 15,8%

Útvarpsgjald var 735 milljónir sem er 5,7% aukning frá árinu á undan.

Jöfnunargjald alþjónustu var 46,4 milljónir króna og dróst saman um 0,4%.