Áætlaðar verklegar framkvæmdir hins opinbera á þessu ári eru samtals 139 milljarðar króna, að því er kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins sem kynnt var á Útboðsþingi, sem er 7,4 milljörðum króna meira en kynnt var á Útboðsþingi SI á síðasta ári.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá SI er um að ræða talsverðar framkvæmdir sem ætlað er að efla innviði hagkerfisins. Boðaðar framkvæmdir eru um 4,5% af væntri landsframleiðslu ársins sem er viðlíka og á síðasta ári er þær námu 4,6% af landsframleiðslu.

Í greiningunni segir að það sé jákvætt að verið sé að boða til umfangsmikilla framkvæmda þar sem innviðaframkvæmdir eru fjárfesting í hagvexti framtíðarinnar. Mikil uppsöfnuð þörf sé fyrir innviðaframkvæmdir víða og henti því framkvæmdirnar vel til að skapa hagkerfinu nauðsynlega viðspyrnu og störf á tímum mikils samdráttar í efnahagslífinu.

Reykjavíkurborg, Vegagerðin og FSR umsvifamest

Umfangsmestu framkvæmdirnar boða Reykjavíkurborg, Vegagerðin og Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR) samkvæmt greiningunni.

„Reykjavíkurborg fyrirhugar framkvæmdir fyrir 28,6 milljarða króna í ár sem er töluvert meira en í fyrra þegar borgin boðaði framkvæmdir fyrir 19,6 milljarða króna, þar sem verið er að fjárfesta mjög víða með einkaaðilum. Um er að ræða fjölbreytt verkefni fyrir allar tegundir verktaka. Vegagerðin boðar nú framkvæmdir fyrir 27,6 milljarða króna sem er nokkur lækkun frá boðuðum framkvæmdum í fyrra þegar þær námu 38,7 milljörðum króna. Af fjárheimildum stofnunarinnar fyrir árið í ár eru 15,5 milljarðar króna til nýframkvæmda og ríflega 12 milljarðar króna til viðhaldsframkvæmda. Meðal verkefna eru samvinnuverkefni með einkaaðilum, svokölluð PPP verkefni, fyrir um 9 milljarða króna. Framkvæmdasýsla ríkisins áætlar nú framkvæmdir fyrir 22,8 milljarða króna á árinu sem er veruleg aukning frá því í fyrra þegar hún boðaði 9,3 milljarða króna framkvæmdir. Um er að ræða aukningu sem skýrist af fjárfestingarátaki stjórnvalda. Alls eru þetta 91 útboð fjögurra ríkisaðila, þ.e. FSR, Ríkiseigna, Háskóla Íslands og Landspítalans háskólasjúkrahúss,“ segir í greiningu SI.

Aðrir opinberir aðilar sem fyrirhugi nokkuð umfangsmiklar framkvæmdir á árinu séu Isavia, Veitur, Landsnet og Nýi Landspítalinn (NLSH).

„Áætlaðar framkvæmdir Isavia hljóða upp á 13,5 milljarða króna á árinu sem er nokkuð minna en fyrirhugað var hjá fyrirtækinu fyrir ári en á Útboðsþingi SI í fyrra boðaði það 21 milljarðs króna framkvæmdir. Um er að ræða sex framkvæmdir sem eru innan uppbyggingar- og þróunaráætlunar Keflavíkurflugvallar. Þetta eru tvær viðbyggingar við flugstöðina, tvö verkefni tengd flugakbrautarkerfinu og tvö verkefni tengd vegakerfinu umhverfis flugvöllinn. Veitur fyrirhuga framkvæmdir fyrir 12 milljarða króna á árinu samanborið við 8,8 milljarða króna í fyrra. Af þessum áætluðu útboðum í ár eru um 4 milljarðar í viðspyrnu vegna COVID-19. Skiptast framkvæmdirnar þannig niður hjá Veitum að fráveitan er með um 2,5 milljarða króna, rafveitan með 3,5 milljarða króna, vatnsveitan með tæplega 1,6 milljarða króna og hitaveitan með tæplega 4,6 milljarða króna. Landsnet fyrirhugar 11,9 milljarða króna framkvæmdir sem er álíka og í fyrra þegar fyrirtækið boðaði framkvæmdir fyrir 11,7 milljarða króna. Um 3,5 milljarðar króna eru í jarðvinnu og byggingum, 3,2 milljarðar króna í rafbúnaði og uppsetningu, 1,6 milljarður í jarðstrengjum, 1,1 milljarður í loftlínuefni og 0,7 milljarðar króna í hönnun og eftirliti. NLSH boðar síðan framkvæmdir fyrir 11 milljarða króna í ár samanborið við 12 milljarða króna í fyrra. Um er að ræða Hringbrautarverkefnið svokallaða sem skiptist í fimm verkhluta, þ.e. meðferðarkjarna, rannsóknahús, bílakjallara undir Sóleyjartorgi, bílastæða- og tæknihús, tengiganga og tengibrýr og svo götur, veitur og lóð.“