„Múrbúðinni þykir rétt að sýna fjölmiðlum og þar með almenningi dæmi um þá forherðingu sem Húsasmiðjan og Steinullarverksmiðjan sýndu í viðleitni sinni til að koma í veg fyrir samkeppni við sölu á steinull til einangrunar húsbygginga," segir í tilkynningu frá Baldri Björnssyni, stofnanda og framkvæmdastjóra Múrbúðarinnar.

Í frétt á vefsíðu Samkeppniseftirlitsins í gær kom fram að fyrrum eigendur Húsasmiðjunnar, Holtavegur 10 ehf.,  hefðu viðurkennt alvarleg brot á samkeppnislögum og skrifað undir sátt sem felur í sér að Holtavegur 10 greiðir 325 milljóna króna stjórnvaldssekt.

Á meðal þerra brota sem fyrrum eigendur Húsasmiðjunnar viðurkenndu var að hafa misnota aðstöðu sína sem eigendur Steinullar hf., en fyrirtækið átti Steinull ásamt Byko og Kaupfélagi Skagfirðinga.

„Játað er að gamla Húsasmiðjan hafi brotið gegn skilyrðunum m.a. með því að hafa beitt sér gagnvart Steinull til að koma í veg fyrir að Múrbúðin fengi ákveðin viðskiptakjör og þannig haft skaðleg áhrif á samkeppnisstöðu Múrbúðarinnar á grófvörumarkaði," segir á síðu Samkeppniseftirlitsins.

Í tilkynningu sem Baldur í Múrbúðinni sendi í dag segir hann að þetta skýri ýmislegt.

„Miðað við þau viðskiptakjör sem Steinullarverksmiðjan bauð hafði Múrbúðin aðeins 5% framlegð af sölu steinullar ef hún yrði seld á sama verði og í Byko og Húsasmiðjunni eins og tilboð þeirra sýndu ítrekað. Múrbúðin hafði því ekkert svigrúm til að lækka verðið og gat þarmeð ekki beitt sér í samkeppni með þessa mikilvægu byggingavöru. "

Í tilkynningunni sem Baldur sendi er afrit af tölvupóstsamskiptum hans við Einar Einarsson, framkvæmdastjóra Steinullar. Þessir tölvupóstar eru sendir í byrjun ársins 2012 en rannsókn Samkeppniseftirlitsins náði til mars 2011.

Tölvupóstur Baldurs til Einars, dagsettur 29. janúar 2012:

„Við þökkum fyrir viðskiptin og lipra þjónustu á síðasta ári. Við höfum móttekið bréf ykkar dagsett 24/1 sl varðandi 5% hækkun á verðskrá ykkar.

Undirritaður hefur af því nokkrar áhyggjur vegna eignarhalds á Steinull hf, að verðhækkanir séu mismiklar á söluaðila ykkar. Því spyr ég;

Hækka vörur jafnmikið til eiganda Steinullar, söluaðilanna Byko og Húsasmiðjunnar ? Ef verð hækka jafnmikið til ofangreindra aðila og til Múrbúðarinnar, vinnið þið hækkunina niður með eftirágreiddum afsláttum til þeirra seinna, t.d. í árslok ?

Eins þú þú sérð höfum við hjá Múrbúðinni nokkrar áhyggjur af mismunum í krafti eignarhalds á Steinull hf. Þetta einnig í ljósi mikillar umræðu þessa dagana um gríðarlega mismunun á verði Íslenskra birgja til stærri smásöluaðila. Það hefur komið berlega í ljós undanfarið að við eigum ekki nokkra möguleika að bjóða ykkar vörur á móti eigendum ykkar nema í litlum sölum til smærri verktaka eða einstaklinga, nokkurs konar kropp sölur og ekkert meira.

Byko sem tapaði rúmlega 400 miljónum árið 2010” og Húsasmiðjan sem sögð var hafa tapað skv fréttum um 309 miljónum fyrstu 7 mánuðum ársins 2011” hafa kannski sérstakt svigrúm til að selja ykkar vörur með lægri álagningu en við hjá Múrbúðinni teljum að rekstur okkar þurfi til að reka fyrirtækið af ábyrgð, rekstrarhallalaust.

Með von um svör við ofangreindum spurningum.

Kveðja / Best regards
Baldur Björnsson."

Hér er svar Einars í Steinull hf., dagsett 30. janúar 2012:


Sæll Baldur.
Ég tek undir með þér að kaup ykkar hafa verið undir því sem ég átti von á. Hverju um er að kenna ætla ég ekki að dæma um en ég get fullvissað þig um að samband okkar við eigendur okkar er nákvæmlega með þeim hætti,  sem ég lýsti á fundi okkar við upphaf viðskiptanna og sömu afsláttakjör eru í gildi nú eins og  verið hafa frá úrskurði samkeppnisráðs árið 2002. Við tökum skilyrði samkeppnisráðs mjög alvarlega og leitumst þess vegna við að halda nauðsynlegri „fjarlægð“ milli fyrirtækjanna.
Það er aðeins einn verðlisti í gangi, sem gildir fyrir alla viðskiptavini á Íslandi og vörurnar hækka að sjálfsögðu jafn mikið til allra. Ástæða þessarar hækkunar er einfaldlega sú, að okkar stærstu kostnaðarliðir hafa hækkað mjög mikið síðan síðasti verðlisti var gefinn út: Laun hafa hækkað samkvæmt kjarasamningum um ríflega 12% og rafmagn hátt í 20 % í takt við nýja verðstefnu Landsvirkjunar auk verulegra hækkana, sem stafa af veikingu krónunnar.
Það hafa aldrei verið greiddir út aðrir eftirágreiddir afslættir til viðskiptavina á Íslandi og engin áform uppi um slíkt. Ég hef að sjálfsögðu fylgst með umræðum í framhaldi af útgáfu skýrslu um mismunun birgja í verðum til smásöluaðila og þykir afar athyglivert að mismunun á þessum „frjálsa“ markaði virðist margföld á við það sem er samkvæmt okkar viðskiptakjörum.
Auðvitað verður að reka öll fyrirtæki með hagnaði og ég sé ekki hvernig Byko eða Húsasmiðjan geta selt steinull með lægri álagningu en aðrar vörur. Stundi menn undirboð og selji vörur með tapi er það væntanlega merki um grimmúðlega samkeppni, sem ekki stenst til lengdar eða hvað ? Samkeppni á byggingamarkaði mun þó væntanlega ekki minnka á næstunni með innkomu nýs aðila á markaðinn.
Við bjóðum að sjálfsögðu alla viðskipamenn velkomna og ég vonast til að okkar samstarf þróist á jákvæðan hátt báðum til hagsbóta.
Bestu kveðjur
F.h. Steinullar hf.
Einar."