*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 23. maí 2020 13:05

Opinberir aðilar á listanum vöktu furðu

Ekkert reyndist til í því að Fæðingarorlofssjóður hafi nýtt sér hlutabæturnar en sveitarfélög og byggðasamlög gerðu það.

Jóhann Óli Eiðsson
Hlutabæturnar og greiðsla launa í uppsagnarfresti verða umfangsmestu aðgerðir hins opinbera til að bregðast við Covid-19.
Jón Aðalsteinn Bergsveinsson

Að minnsta kosti þrjú sveitarfélög og tvö byggðasamlög nýtt sér á einhverjum tímapunkti hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar. Í nýrri útfærslu hlutabótaleiðarinnar er ekki kveðið afdráttarlaust á um að heimildin standi ekki opinberum aðilum til boða en það gildir hins vegar um þátttöku ríkisins í greiðslu uppsagnarfrests.

Hlutabótaleiðin var ein af fyrstu aðgerðunum sem ráðist var í til að bregðast við samdrætti af völdum veirufaraldursins. Markmiðið var að gera fyrirtækjum kleift að halda í ráðningarsamband við starfsfólk sem að öðrum kosti hefði verið sagt upp störfum og því skutlað á atvinnuleysisbætur að fullu. Í liðnum mánuði fengu tæplega 34 þúsund einstaklingar greiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði, til viðbótar við ríflega 16 þúsund á fullum atvinnuleysisbótum, vegna þessa en þeir störfuðu hjá ríflega sex þúsund fyrirtækjum.

Nokkur umræða hefur verið í samfélaginu um að stöndug fyrirtæki hafi fært sér leiðina í nyt, þá í raun til að verja hagnað eða fegra uppgjör í stað þess að verjast þroti. Listinn var loks birtur í gær.

Samkvæmt heimildum blaðsins hefur einnig verið nokkur umræða innan stjórnkerfisins um að heiti opinberra aðila hafi verið að finna á listanum. Í einhverjum tilfellum hafi verið um stofnanir á fjárlögum að ræða. Nafn Fæðingarorlofssjóðs heyrðist til að mynda hátt í þeirri umræðu og vakti það furðu enda varla gífurlegur samdráttur í fæðingum. Skýringin þar að baki er hins vegar sú að í einhverjum tilfellum var starfsfólk í fæðingarorlofi að hluta samhliða hlutabótum í lækkuðu starfshlutfalli.

„Það er algjör firra enda enginn samdráttur í rekstri þar. Sama hef ég heyrt um Atvinnuleysistryggingasjóð sem er enn vitlausara, þar hefur aldrei í Íslandssögunni verið meira álag,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri VMST, í svari við fyrirspurn blaðsins um það hvort Fæðingarorlofssjóður hefði nýtt sér leiðina.

Heimildir blaðsins herma að kennitala ríkissjóðs hafi verið á listanum en hana er ekki lengur að finna á birtum lista. Nokkrum erfiðleikum gæti verið háð að finna út hvert þær skráningar eiga rætur að rekja. Opinberir aðilar á eigin kennitölu myndu birtast á listanum undir nafni en erfiðara er að finna upprunann í tilfellum þegar ríkissjóður er launagreiðandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér