Guðlaugur Þór Þórðarson, Alþingismaður og fulltrúi Sjálfstæðisflokks í fjárlaganefnd Alþingis, varar við því að útgjöld ríkissjóðs verði hækkuð frekar. Þetta kemur fram í frétt RÚV fyrr í dag. Útgjaldaaukning ríkissjóðs milli fjárlaga, fyrir utan launahækkanir, sé umþað bil 37 milljarðar króna.

Á fundi Fjárlaganefndar í gær voru lagðir fram útreikningar frá fjármálaráðuneytinu, að beiðni nefndarinnar, um raunbreytingar á útgjöldum málefnasviða og málaflokka milli fjárlaga. Samkvæmt þeim munu útgjöld ríkisins, fyrir utan launahækkanir, hækka um 36 og hálfan milljarð króna frá fjárlögum 2016. Mest fer fyrir hækkun fjárframlaga til heilbrigðismála og aukin útgjöld í málefni aldraðra.

Guðlaugur segir umræðuna hafa verið undarlega enda um að ræða gríðarlega mikla aukningu ríkisútgjalda. Hann segir mikilvægt að fara varlega núna þegar framundan geti verið mikið þensluskeið og því mikilvægt að opinberir aðilar hiti ekki sérstaklega það bál.