Alls bárust 20 umsóknir um samstarfsverkefni til markaðssetningar Íslands á tímabilinu október 2009 til mars 2010.

Starfshópur, sem í sátu fulltrúar Ferðamálastofu, Útflutningsráðs og Höfuðborgarstofu,  hefur farið yfir umsóknirnar og samþykkt að ganga til samninga um 6 verkefni að heildarfjárhæð um 170 milljónir króna.

Þau  verkefni sem samþykkt var að ganga til samstarfs um voru:

  • Icelandair:  Winter Campaign Boston - New York - Seattle
  • Iceland Express: Markaðsherferð á vefnum í Bretlandi frá október 2009 til mars 2010
  • Go To Iceland LLC: Go To Iceland
  • Icelandair:  Newspaper & Online Campaign - Frankfurt, Paris and Amsterdam
  • Iceland Express: Markaðsherferð á vefnum í Skandinavíu frá október 2009 til mars 2010
  • Iceland Travel ehf.: Iceland Total

Í tilkynningu frá Ferðamálastofu kemur fram að framlag til samstarfsverkefnanna er 50 milljónir króna. Í auglýsingu, sem birt var 11. september síðastliðinn, var óskað eftir tillögum frá íslenskum ferðaþjónustuaðilum að umræddum samstarfsverkefnum. Verkefni dreifast á meginmarkaðssvæði íslenskrar ferðaþjónustu í Bretlandi, á meginlandi Evrópu, í N-Ameríku og á Norðurlöndum. Þar kom jafnframt fram að mótframlag umsóknaraðila skyldi vera að lágmarki tvöfalt hærra en framlag Ferðamálastofu (2 kr. á móti einni).

Lágmarksframlag til eins verkefnis miðaðist við 5 milljónir króna og hámarksframlag til eins verkefnis 10 milljónir króna.

„Að teknu tilliti til mótframlags í þeim verkefnum sem samþykkt voru er ljóst að framlag til átaksins fullnýtist,“ segir í tilkynningunni en að að viðbættu mótframlagi umsóknaraðila er heildarupphæð átaksins 170 milljónir króna, sem fyrr segir.

Öll verkefnin snúast um kynningu í formi auglýsinga í prentmiðlum og/eða á vefnum á því tímabili sem um ræðir og uppfylltu einnig önnur þau skilyrði sem fram komu í auglýsingunni um verkefnið.