Tæplega fimmtungur kvartana sem berst umboðsmanni Alþingis kemur frá starfsmönnum hins opinbera. Hið sama gildir um fimmtung þeirra álita sem lokað var á síðasta ári. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársskýrslu umboðsmanns.

Í skýrslunni segir að síðustu ár hafi kvörtunum frá opinberum starfsmönnum fjölgað jafnt og þétt. Nú sé svo búið að málaflokkurinn sé ekki eingöngu sá sem telur flestar kvartanir heldur jafnframt sá málaflokkur sem sé hvað fyrirferðamestur fyrir embættið.

„Það er ástæða til að staldra við þessa þróun, meðal annars í ljósi þess að við meðferð starfsmannamála reynir almennt á sömu málsmeðferðarreglur og þarf að fylgja og beita við úrlausn annarra stjórnsýslumála. Hér þarf að hafa í huga að umsækjendur um opinber störf og opinberir starfsmenn eiga því í reynd úrlausn mála sinna undir þekkingu og reynslu þeirra starfsmanna sem fjalla um mál þeirra komið og eru því í sömu stöðu og aðrir borgarar að því leyti,“ segir í skýrslunni.

Samkvæmt umboðsmanni ætti Alþingi að taka til skoðunar hvort rétt sé að lögfesta sérstakar bótareglur í tilefni af lögbrotum við ráðningar í opinberar stöður. Einkum þyrfti að vera til staðar viðhlítandi lagaheimild til að bæta miska. Umboðsmaður hefur áður, í fyrri ársskýrslum og álitum, vakið athygli Alþingis á þessu.

„Ekki verður framhjá því litið að í þeim málum sem berast umboðsmanni hefur oft verið farin sú leið af hálfu stjórnvalda að fá utanaðkomandi aðstoð, t.d. frá ráðgjafarfyrirtæki og/eða lögmönnum sem hefur leitt til ýmissa álitaefna […]. Þar brennur auk þess of oft við að stjórnvöld firri sig ábyrgð við meðferð mála og fela einkaaðila í reynd ákvörðunarvald. Þar þarf að hafa í huga að aðkoma utanaðkomandi sérfræðings má ekki leiða til þess að réttarstaða borgarans verði lakari en leiðir af lögum og reglum,“ segir í skýrslunni.

Um er að ræða fyrstu ársskýrslu Skúla Magnússonar sem umboðsmanns en hann tók við embættinu af Tryggva Gunnarssyni í ár. Skúli starfaði að vísu ekki hjá embættinu á síðasta ári en það fellur í hans hlut að leggja skýrsluna fram.