Ein mesta sóun í opinberu fé í Bretlandi er vegna launagreiðslna til opinberra starfsmanna, sagði Matthew Elliot, framkvæmdastjóri Samtaka skattgreiðenda í Bretlandi (e. TaxPayers Alliance). Elliot hélt fyrirlestur á vegum Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxtí Lögbergi í Háskóla Íslands í dag.

„Við þurfum að beina athyglinni að sóun hins opinbera,“ sagði Matthew og benti á plagg sem gefið hefur verið út þar sem bent er á að laun opinberra starfsmanna eru umtalsvert hærri en laun starfsmanna í einkageiranum.

Á blaðinu, sem ber yfirskriftina „The Bumper Book on Government Waste“ segir að hið opinbera í Bretlandi greiði 171 milljarð punda í laun. Opinbera greiði þannig 8,2% hærra en einkageirinn. Þessari þróun hafi ekki tekist að snúa við. Það þurfi að gera breytingar til þess að draga úr launakostnaði hins opinbera og gera lífeyrissjóðakerfið sjálfbærara.

Fundurinn í Lögbergi í dag var fjölsóttur. Á meðal margra þeirra sem þarna voru staddir voru áberandi menn úr íslensku stjórnmála- og viðskiptalífi. Þeirra á meðal voru Birgir Ármannsson alþingismaður, Friðrik Sophusson, fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi stjórnarformaður Íslandsbanka, Hannes Hólmsteinn Gissurason, prófessor við Háskóla Íslands, Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri Gamma, og bræðurnir Ívar Páll Jónsson og Gunnlaugur Jónsson en sá síðastnefndi er framkvæmdastjóri Eykon.