47,7% tapaðra vinnudaga vegna verkfalla á Íslandi síðan 1977 hafa verið vegna verkfalla á opinberum vinnumarkaði. Því má segja að opinberir starfsmenn, sem eru rúmlega fimmtungur íslensks vinnuafls, standi fyrir um það bil helmingi af töpuðum vinnudögum vegna verkfalla hér á landi. Þetta kemur fram í grein Gylfa Dalmanns Aðalsteinssonar, dósents við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, í nýjasta tímariti Stjórnmála og stjórnsýslu sem kom út í gær.

1.974.699 vinnudagar töpuðust vegna verkfalla á Íslandi á tímabilinu 1977-2009. Af þeim voru 932.102 vegna verkfalla á opinberum vinnumarkaði. Flestir vinnudagar töpuðust vegna verkfalla árið 1984, en þá var allsherjarverkfall hjá BSRB sem náði til um 12.000 félagsmanna. 294.807 vinnudagar töpuðust vegna verkfalla opinberra starfsmanna það ár.

Á hverju ári voru að meðaltali 0,3 tapaðir vinnudagar á hvern starfsmann á almenna vinnumarkaðnum. Hins vegar voru um 1,3 tapaðir vinnudagar á ári á hvern starfsmann á opinbera vinnumarkaðnum. Þannig virðast opinberir starfsmenn hafa farið mun oftar í verkföll á tímabilinu sem var til rannsóknar.

Fjölmargar ástæður að baki

Í grein sinni nefnir Gylfi ákveðnar ástæður fyrir verkfallshneigð opinberra starfsmanna, eins og hann orðar það. Opinberir starfmenn hafi í kröfum sínum ítrekað bent á að þeir hafi dregist aftur úr í launum, annars vegar í samanburði háskólamenntaðra ríkisstarfmanna og hins vegar í samanburði við sambærilega hópa á almennum vinnumarkaði. Jafnframt hafi verkfallsvopnið komið tiltölulega seint í hendur opinberra starfsmanna og því hafi þeir viljað prófað það í meira mæli.

Gylfi nefnir einnig að breytt starfsumhverfi ríkisstarfsmanna, sem hefur meðal annars falist í kröfum um hagræðingu í rekstri og niðurskurði, hafi gert það að verkum að álag á starfmenn hafi aukist. Barátta kvenna til að minnka kynbundinn launamun, mikil miðstýring í launasetningu og aukið dreifræði meðal stéttarfélaga opinberra starfsmanna eru einnig sögð spila inn í. Þá segir Gylfi að samráðskerfið, þar sem ríkisvaldið býður fram ákveðnar lausnir til að liðka fyrir gerð kjarasamninga, hafi ekki náð til hins opinbera vinnumarkaðar.

Að lokum nefnir Gylfi að verkfallsvilji sé jafnan mikill hjá opinberum stéttarfélögum miðað við þátttöku í atkvæðagreiðslum um verkfallsboðun, að almennt sé mikil launaóánægja meðal opinberra starfsmanna, og að samningarnefndir ríkis og sveitarfélaga hafi oft ekki nægilega mikið samningsumboð að mati stéttarfélaga.

Ýmsar lausnir í boði

Gylfi segir í greininni að ýmislegt sé hægt að gera til að minnka átök á opinberum vinnumarkaði. Í fyrsta lagi megi innleiða svokallaða frestunarheimild í lög um verkföll opinberra starfsmanna, en slík heimild er í lögum um verkföll á almennum vinnumarkaði. Í öðru lagi þurfi að endurskoða fyrirkomulag kjarasamninga, einkum fyrirkomulag stofnanasamninga.

Í þriðja lagi þurfi að tryggja að ekki verði launamunur á milli sambærilegra hópa meðal opinberra starfsmanna eins og hafi sýnt sig í kjaradeilum heilbrigðisstarfmanna, ásamt því að tryggja að á milli sambærilegra hópa á opinberum og almennum vinnumarkaði séu launin sambærileg. Loks þurfi að auka þáttöku stéttarfélaga á opinbera vinnumarkaðnum að samráðskerfi stjórnvalda.