Hækkunartaktur launa á ársgrundvelli var mestur vorið 2016, en þá nam hann 13%, en síðustu mánuði hefur hann verið nokkuð stöðugur í rúmlega 7% að því er Landsbankinn greinir frá í Hagsjá sinni. Lág og stöðug verðbólga hefur tryggt að launahækkunin hefur skilað sér í auknum kaupmætti sem hefur verið í sögulegu hámarki síðustu 3 mánuði, og er hann nú 5% meiri en fyrir ári síðan.

Samkvæmt kjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum ætti hækkunartaktur launa að vera nú í kringum 4,5% en síðustu mánuði hefur hækkunartaktur launavísitölunnar verið rúmlega 7% síðustu mánuði. Segja þeir þróun hennar því vísbending um jafnt og stöðugt launaskrið, þar sem laun á opinbera markaðnum hefur hækkað meira en laun á einkamarkaði milli 2. ársfjórðungs árið 2016 og 2017.

Starfsmenn sveitarfélaga hækka mest

Er mest hækkun meðal starfsmanna sveitarfélaga, eða 8,1%, en 7,4% hjá starfsmönnum ríkisins, en samanlagt telst launahækkunin á opinbera markaðnum nema 7,7%. Á sama tíma hækkuðu laun á almenna markaðnum um 6,2%, en ef sú tala er greind sést að mest hækkun var á launum þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks, en minnst hækkun hjá stjórnendum, eða 5,2%.

Benda hagsjáin á að þær þrjár greinar sem skeri sig mest úr, flutningar og geymsla, byggingarstarfsemi og verslun séu einmitt þær þrjár sem næst standa þenslunni í hagkerfinu.

Nú séu hins vegar töluverður fjöldi samninga laus, aðallega á opinbera markaðnum, og því viðræður í gangi, en hins vegar muni laun á almenna markaðnum hækka um 3% þann 1. maí 2018, ef þeir samningar gilda áfram en þeir voru framlengdir um eitt ár í febrúar.