Verkföll allt að 18 þúsund opinberra starfsmanna hefjast 9. mars, verði þau samþykkt í atkvæðagreiðslu BSRB í komandi viku. Meðal starfsfólks sem um ræðir er starfsfólk á Landspítalanum og í annarri heilbrigðisþjónustu, velferðarþjónustu, skólum, leikskólum og frístundaheimilum auk starfsfólks sundlauga og íþróttahúsa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá BSRB nú í morgun.

Atkvæðagreiðslan meðal þeirra aðildarfélaga BSRB sem nú semja við ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga, og Reykjavíkurborg, fer fram dagana 17. til 19. febrúar eða frá mánudegi til miðvikudags næstkomandi. Niðurstöðurnar verða svo kynntar fimmtudaginn 20.

Aðgerðirnar verða tvískiptar, komi til þeirra. Annarsvegar verkföll hjá þorra þeirra sem um ræðir á ákveðnum en ótilgreindum dögum, og hinsvegar ótímabundið verkfall ákveðinna hópa – meðal annars starfsmanna grunnskóla og frístundaheimila – frá 9. mars.

Til stendur að boðaðar aðgerðir standi fram að páskum, en 15. apríl taki svo við ótímabundið allsherjarverkfall, hafi samningar ekki náðst.

Aðildarfélögin sem um ræðir eru 17 talsins og hafa verið samningslaus frá 1. apríl síðastliðnum.