Síðastliðinn mánuð hefur munur á gengi krónunnar gagnvart evru á aflandsmarkaði og opinberu gengi Seðlabanka Íslands farið vaxandi en frá því í byrjun apríl þar til um miðjan maí dró mikið úr þessum mun.

Þetta kemur fram í Hagsjá, vefriti Hagfræðideildar Landsbankans en þar kemur fram að síðustu viku hefur krónan styrkst gagnvart evru í viðskiptum á aflandsmarkaði en veikst lítillega í opinberum viðskiptum og því hefur heldur dregið úr mun á gengi evru gagnvart krónu á þessum tveimur mörkuðum.

Hagfræðideild Landsbankans segir að ef miðað er við skráð gengi Seðlabankans hefur krónan veikst látlaust gagnvart evru síðan í byrjun mars. Gengi evru hefur þannig stigið úr um 141 krónum í tæpar 180 krónur, eða um rúm 27%.

Fram kemur að aflandsgengið hefur hinsvegar sveiflast á þessu tímabili, úr 205 krónum í 300 krónur og stendur nú í 220 krónum. Þannig er aflandsgengi evru um 42 krónum hærra en gengi Seðlabankans í dag en munurinn var mestur 24. mars, 145 krónur.

Sjá nánar í Hagsjá.